Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, segir að miklar þversagnir felist í afstöðu ríkisins til tekjuöflunar af ferðamönnum.

„Á sama tíma og ríkisvaldið ætlar að plokka 400 milljónir króna árlega af ferðamönnum með komu- og gistináttagjöldum, þá hafnar það möguleikanum á 700 milljón króna skatttekjum af rekstri casínós hér á landi,“ segir Magnea Þórey í athugasemd sem send er fjölmiðlum.

Athugasemd Magneu Þóreyjar í heild:

Ríkið vill frekar plokka 400 milljónir króna af ferðamönnum en þiggja 700 milljón króna tekjur af casínórekstri

Undirrituð telur ástæðu til að vekja athygli á miklum þversögnum í afstöðu ríkisins til tekjuöflunar af ferðamönnum.

Á sama tíma og ríkisvaldið ætlar að plokka 400 milljónir króna árlega af ferðamönnum með komu- og gistináttagjöldum, þá hafnar það möguleikanum á 700 milljón króna skatttekjum af rekstri casínós hér á landi.

Reynsla annarra landa sýnir að auknar beinar álögur á ferðamenn leiði til fækkunar þeirra og rýri tekjur af ferðaþjónustu.

Icelandair hotels hafa ásamt fleirum unnið að undirbúningi fyrir rekstur casínós hér á landi. Casínó eru rekin um allan heim og eru afar vinsæl af ferðamönnum og drjúg tekjulind fyrir hið opinbera.

Áætlað var að casínó í Reykjavík mundi skapa 50-70 ný störf og skila 700 milljónum króna í skatttekjur. Um leið mundi starfsemi ólöglegra spilavíta leggjast af, líkt og raunin hefur orðið annars staðar þar sem casínó hafa verið leyfð.

En heilbrigðisráðuneytið leggst alfarið gegn því að casínó verði opnað hér á landi, á þeirri forsendu að það sé heilsuspillandi. Það vekur auðvitað nokkra furðu að aðrar þjóðir heims skuli ekki hafa frétt af þessari heilsuvá.

En ríkið ætlar engu að síður að ná í auknar tekjur af ferðamönnum og hefur boðað komu- og gistináttagjöld sem eiga að skila 400 milljónum króna.  Þessi gjöld á að plokka af hverjum einasta ferðamanni sem kemur til landsins og/eða gistir hér á landi. Hundruð aðila í ferðaþjónustu þurfa að innheimta gjöld af mörg hundruð þúsund manns – og skila til ríkisins með tilheyrandi pappírum og innheimtukostnaði.

Nógu vitlaust er að leggja þessa innheimtuvinnu á ferðaþjónustuna. Öllu vitlausara er að fæla ferðamenn frá landinu með þessari gjaldtöku.  Staðreyndin er sú að bein gjaldtaka af þessu tagi fer öfugt í fólk. Kanadamenn hafa bitra reynslu af því að reyna að rýja túrista inn að skinni með alls konar ríkisálögum. Ferðamönnunum einfaldlega fækkaði og tekjur af greininni hrundu.

Síðastliðinn föstudag tóku Írar þá ákvörðun að lækka flugvallaskatta um 70% til að styðja við ferðaþjónustuna.

Ísland á í harðri samkeppni við fjölda annarra áhugaverðra áfangastaða í heiminum.  Ef ferðamenn fara að fá vonda tilfinningu fyrir plokkinu, þá fara þeir eitthvert annað. Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustunni eru 155 milljarðar króna. Af einhverri undarlegri ástæðu hefur ríkisvaldið meiri áhuga á að stefna þessum tekjum í voða en stuðla að aukningu þeirra. Sérkennilegast er auðvitað að vilja ekki þiggja tekjur af ferðamönnum í gegnum nýjan skattstofn - casínórekstur – peninga sem ferðamenn leggja fram með glöðu geði.

Magnea Þórey Hjálmarsdóttir

Framkvæmdastjóri Icelandair Hotels“