Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA svf. á Akureyri, sagði í viðtali í Viðskiptablaðinu fyrir helgi að enn væri mikla óvissu í fjármálakerfinu vegna eignamats almennt. Í því samhengi skipti miklu hvort hægt verði að koma efnahagslífinu á meiri snúning.

Þarf að afskrifa óraunhæfar skuldir

„Á meðan við náum ekki að snúa þessum hjólum af stað aftur og einbeita okkur að uppbyggingu, munum við áfram vera í óvissu um eignamat. Menn verða þá óöruggir og ólíklegir til ákvarðana um ýmsa hluti."

Halldór segist hafa miklar áhyggjur af því að bankarnir séu ekki nógu viljugir til að afskrifa óraunhæfar skuldir og ýta þannig undir það að hjólin fari að snúast á ný.

„Ef menn drepa viðleitni fyrirtækjanna til að endurnýja sig með of hárri  skuldsetningu, þá eru bankarnir til lengri tíma að búa til verri skuldara. Þeir fá reikninginn í hausinn þótt síðar verði. Ég er ekki að tala um að bankarnir eigi að gefa mönnum peninga, heldur að setja skuldastöðu félaga á einhvern eðlilegan grunn þannig að menn sjái einhvern tilgang í því að halda áfram rekstri. Við höfum nóg af dæmum þar sem bankar hafa haldið skuldastiginu háu. Japan er þar skýrasta dæmið og þeir hafa ekki enn komist út úr sinni kreppu eftir 20 ár. Slík afstaða gerir ekkert annað en að hamla framþróun bankanna sjálfra sem og hagvexti," segir Halldór.