Metaðsókn er í nám hjá Keili á Vallarheiði á Reykjanesi en umsóknarfrestur rennur út á morgun 20. janúar. „Við erum nokkuð vel í stakk búin til að taka við þessari auknu aðsókn,” segir Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Keilis.

Hátt á fjórða hundrað umsóknir hafa borist um nám á vormisseri hjá Keili sem eru þrefalt fleiri en í fyrra. Nemendur Keilis á vormisseri verða um 600 og tæplega 2.000 manns búa nú á háskólasvæðinu.

„Við gerum ekki ráð fyrir því að fá aukin opinber framlög til skólans, en kostum kennsluna með skólagjöldum. Þá njótum við þess að vera ákaflega vel fjármagnað félag. Keilir var stofnaður með 400 milljóna króna hlutafé sem var innborgað. Við erum búin að ávaxta þann sjóð vel og stöndum fjárhagslega mjög vel og höfum getu til að taka við nýju fólki.”

Runólfur Ágústsson, framkvæmdastjóri Keilis segir að í ljósi stöðunnar í samfélaginu hafi verið áveðið að byrja vormisserið seinna en venjulega, eða um mánaðamótin janúar - febrúar. Í staðin verður kennt lengra fram eftir vori eða fram á sumar.

„Við bjuggumst við að það væru töluvert margir sem stæðu frammi fyrir breytingum í sínu lífi upp úr áramótum. Við virðumst hafa lesið það rétt því aðsóknin er gríðarleg."

Boðið er upp á fjölbreytt nám á framhalds- og háskólastigi, bæði í staðnámi og fjarnámi. Flestir hafa sótt um nám við Háskólabrú sem er samstarfsverkefni Keilis og Háskóla Íslands. Háskólabrúin býður upp á aðfararnám á vegum HÍ fyrir einstaklinga sem ekki hafa lokið stúdentsprófi. Að loknu námi uppfylla nemendur almenn inntökuskilyrði innlendra háskóla og telst námið almennt sambærilegt stúdentsprófi samkvæmt samningi Keilis, HÍ og menntamálaráðuneytisins.

Þá er einnig nú á vormisseri boðið upp á fjölbreytt starfstengt nám með sérstakri áherslu á flug og samgöngur. Má þar nefna einkaflugmannsnám, atvinnuflugmannsnám og nám í flugumferðastjórnun.

Á háskólastigi verður tekinn inn nýr hópur í frumkvöðlanám sem fram fer í samstarfi Keilis við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og verkfræðideild HÍ og nýtt nám í tæknifræði í samstarfi Keilis og Háskóla Íslands þar sem boðið er upp á tvær námslínur, orkutæknifræði og mekatróník.