Halldór Jörgensen, framkvæmdastjóri Microsoft á Íslandi, er meðal nýrra eigenda DV og á í félagið með Boga Emilssyni, Framkvæmdastjóra DV, tæplega 16% hlut í félaginu.

Sem kunnugt er leiddi Reynir Traustason, ritstjóri DV, hóp fjárfesta í lok mars sem keyptu það að Birtíngi, félagi í eigu Hreins Loftssonar.

Þegar hefur verið greint frá því að Reynir og Lilja Skaftadóttir, listverkasali, séu stærstu eigendur blaðsins en saman eiga þau um 64,5% hlut.

Í dag er síðan birtur á dv.is listi yfir eigendur blaðsins. Þá kemur í ljós að óstofnað félag í eigu þeirra Boga og Halldórs eigi tæpan 16% hlut sem er stærsti einstaki hluturinn á eftir þeim Reyni og Lilju.

Fram kemur á vef blaðsins að samþykkt hafi verið einróma að í lögum DV væri kveðið á um að enginn hluthafi réði meira en 26% atkvæðamagns í ákvörðunum félagsins, hversu stóran hlut sem hann ætti í félaginu.

Hluthafar í DV ehf. eru eftirfarandi:

  • Reynir Traustason, ritstjóri DV 33.04%
  • Lilja Skaftadóttir Hjartar, listaverkasali, búsett í Frakklandi 31.47%
  • Óstofnað félag í eigu Boga Emilssonar, framkvæmdastjóra DV, og Halldórs Jörgenssonar, yfirmanns Microsoft á Íslandi, 15.74%
  • Catalina ehf, í eigu Steingríms Stefnissonar 3.15%
  • Arev verðbréfafyrirtæki hf. 2.36%
  • Jón Trausti Reynisson, ritstjóri DV 2.12%
  • Ingi F. Vilhjálmsson, blaðamaður DV 1.57%
  • Hildur Helga Sigurðardóttir fjölmiðlakona 1.57%
  • Dagmar Una Ólafsdóttir jógakennari 1.57%
  • Meiriháttar ehf, í eigu Sigurdórs Sigurðssonar framkvæmdarstjóra 1.57%
  • Þórir Jökull Þorsteinsson prestur 1.57%
  • Gísli Jónsson hjartalæknir 1.57%
  • Kolbeinn Þorsteinsson, blaðamaður DV 0.79%
  • Víkurós ehf, réttingarverkstæði í Reykjavík, í eigu feðganna Hjartar Erlendssonar og Erlends Hjartarsonar 0.79%
  • Hrafn Margeirsson bifreiðarstjóri 0.79%
  • Sigríður Sigursteinsdóttir ellilífeyrisþegi 0.31%