Í leiðara á vef Samtaka atvinnulífsins gagnrýnir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri samtakanna, harðlega frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið. Telur Vilhjálmur Ríkisútvarpið vera eina af þeim opinberu stofnunum sem "minnst þörf er fyrir".

Í leiðara sínum segir Vilhjálmur að Ríkisútvarpið starfi á fjölmiðlamarkaðnum í mikilli samkeppni við önnur fyrirtæki. "Með áformuðum breytingum verður Ríkisútvarpið mun öflugri keppinautur en áður þar sem sveigjanleikinn í rekstrinum verður aukinn og litlar hömlur lagðar á þróun starfseminnar. Þótt sérstaklega sé kveðið á um fjárhagslegan aðskilnað á milli útvarpsþjónustu í almannaþágu og annars rekstrar er það ekki líklegt til þess að virka í þessu tilviki þar sem skilgreiningin á útvarpsþjónustu í almannaþágu er svo rúm að hún getur náð yfir lang stærstan hluta starfseminnar. Því er hætt við að mjög þrengi að keppinautum Ríkisútvarpsins og það fái algjöra yfirburði á markaðnum með þeim afleiðingum að í heild verði framboð af efni fábreyttara og einhæfara en nú er enda mun Ríkisútvarpið ohf. fá afhenta 2,7 ? 2,8 milljarða fyrirhafnarlaust frá skattgreiðendum meðan önnur fyrirtæki þurfa að leggja enn stífari arðsemismælikvarða á allt sitt efnisframboð og geta litla áhættu tekið. Þess vegna verður aldrei friður um Ríkisútvarpið ohf. í fyrirhugaðri mynd," segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur bendir á aðra leið sem hefði verið heppilegri. Hún er að Ríkisútvarpið ohf. starfi á sambærilegum grunni og önnur fyrirtæki á markaðnum, þ.e. verði áskriftarmiðill án skylduáskriftar og leiti eftir viðskiptavinum eins og keppinautarnir. Vilhjálmur segir að það þurfi líka að huga að því hvernig Ríkisútvarpið þróast frá stofnun að fyrirtæki og það væri ekki óeðlilegt að einhver aðlögunartími gæfist. Það er hægt að gera með því að stofna sérstakan sjóð fyrir framleiðslu og dreifingu á íslensku menningarefni sem hefði t.d. 700 ? 800 milljónir árlega til ráðstöfunar. "Í fyrstu gæti allt þetta fé runnið til Ríkisútvarpsins ohf. vegna umframkostnaðar fyrirtækisins en smám saman eða á 10 ára tímabili ætti föst hlutdeild þess að lækka en hinn hluti upphæðarinnar að úthlutast á samkeppnisgrundvelli. Ríkisútvarpið jafnt sem aðrir framleiðendur og dreifendur hefðu því aðgang að þessu fé."

Vilhjálmur segir að þannig gætu smám saman fleiri komið að framleiðslu og dreifingu efnis sem myndi tryggja aukna fjölbreytni og stuðla að meiri gæðum auk þess sem jafnræði yrði á milli keppinauta á markaðnum. "Með svona leið væri verið að ná mun betur markmiðum um stuðning við íslenska menningu. Sú leið sem fyrirhuguð er í frumvarpinu vekur hins vegar upp þá spurningu hvort íslensk menning eigi aðeins að vera í þágu Ríkisútvarpsins ohf. eða hvort menningin eigi að vera í þágu allra landsmanna," segir Vilhjálmur.