Jón Steindór Valdimarsson, framkvæmdastjóri samtaka iðnaðarins, sagði í setningarræðu sinni á Útboðsþingi í gær að það væru sér mikil vonbrigði hversu hægt hafi gengið að fá lífeyrissjóðina til að koma að fjármögnun verkefna í landinu. Af þeim verkefnum sem kynnt væru á Útboðsþingi væri aðeins eitt sem fjármagnað væri af lífeyrissjóðunum utan fjárlaga. Þar væri um að ræða fjármögnun nýja Landsspítalans þar sem eiginlegar framkvæmdir hæfust þó ekki fyrr en á árinu 2011.

Fjármagnið sefur á bankareikningum

„Aðilar vinnumarkaðarins hafa sýnt ábyrgð og samstöðu í því verkefni til að tryggja lágmarks starfsemi í greininni með aðgengi að fjármagni lífeyrissjóðanna. Þessu hafa stjórnvöld illu heilli ekki sýnt, því verður að breyta. Viðfangsefnið þolir einfaldlega ekki bið. Það er ömurlegt til þess að vita að mikið fjármagn liggur og sefur inni á bankareikningum í stað þess að vera nýtt til þess að koma á nauðsynlegri hreyfingu í hagkerfinu. Þessa kyrrstöðu verður einfaldlega að rjúfa."

Sagði Jón Steindór að SI hafi lagt hart að stjórnvöldum, bæði ríkisstofnunum og sveitarfélögum að efla og auka framkvæmdir. Sagði hann að auk þess að setja þannig í gang nauðsynleg verkefni væru þau um leið þörf ábending til almennra borgara um að enn væri verið að framkvæmd eitthvað í landinu og að íslensk stjórnvöld ætluðu sér að viðhalda samkeppnishæfni íslensks samfélags.

Verðum sjálf að móta framtíðina

„Þrátt fyrir tímabundna erfiðleika, þá er þrátt fyrir allt framtíðin björt. En hún er einungis björt ef við reynum að móta hana sjálf og látum ekki einfaldlega skeika að sköpum. Það er hlutverk stjórnvalda að viðhalda þeirri sýn og þar gegna framkvæmdir miklu hlutverki. - Við eigum engan annan kost en að horfa til framtíðar. Eitt af þeim verkefnum sem við þurfum að leysa er að tryggja vöxt og viðgang mannvirkjagerðar. Ekki bara vegna hennar sjálfrar heldur vegna þess að hún er ómissandi tannhjól í gangverki atvinnulífsins. Við þurfum líka að leita leiða til að leita meira jafnvægis í greininni um leið og við hættum að líta svo á að það sé eðlilegt að á nokkurra missera fresti sé greinin þanin út fyrir öll skynsemismörk og jafn harðan dregin saman með slíkum látum að fólk og fyrirtæki liggja eftir í valnum. Við eigum ekki að sætta okkur við þetta það er algjörleg óþarft."