Gangsetningu Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði lauk í síðasta mánuði og nú tekur við daglegur rekstur eins stærsta framleiðslufyrirtækis landsins. Í tengslum við lok gangsetningar hafa nokkrar tilfærslur átt sér stað innan framkvæmdastjórnar fyrirtækisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alcoa. Á myndun hér til hliðar má sjá framkvæmdastjórn Alcoa Fjarðaráls og nánir upplýsingar um hvern aðila. Með því að smella á númerin er skipt á milli mynda.

Geir Sigurpáll Hlöðversson kemur nýr inn sem framkvæmdastjóri skautsmiðju og umhverfismála en Bob Lenney sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra umhverfis-, heilbrigðis- og öryggismála tímabundið, hverfur nú til annarra starfa innan Alcoa.

Ingólfur Kristjánsson tekur við stöðu framkvæmdastjóra framleiðsluþróunar og Janne Sigurðsson verður framkvæmdastjóri álframleiðslu.

Hafsteinn Viktorsson, framkvæmdastjóri áreiðanleika, mun eftir breytingarnar einnig stýra heilbrigðis- og öryggismálum.

Framkvæmdastjórnina skipa nú:

Erna Indriðadóttir, framkvæmdastjóri samfélags- og upplýsingamála, Geir S. Hlöðversson, framkvæmdastjóri skautsmiðju og umhverfismála, Hafsteinn Viktorsson, framkvæmdastjóri áreiðanleika, heilbrigðis- og öryggismála, Ingólfur Kristjánsson, framkvæmdastjóri framleiðsluþróunar, Janne Sigurðsson, framkvæmdastjóri álframleiðslu, Ormarr Örlygsson, framkvæmdastjóri málmvinnslu, Óskar Borg, framkvæmdastjóri innkaupa, Páll Freysteinsson, framkvæmdastjóri upplýsingatæknimála, Ruth Elfarsdóttir, framkvæmdastjóri fjármála, Steinþór Þórðarson, framkvæmdastjóri mannauðsmála og Tómas Már Sigurðsson, forstjóri.