Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur lækkað hagvaxtarspá sína fyrir þetta ár og lýst því yfir að spáin fyrir það næsta verði sennilega lækkuð í nóvembermánuði.

Fram kemur í ársfjórðungsspá framkvæmdastjórnarinnar að viðvarandi verðhækkanir á hrávöru, titringur á fjármálamörkuðum og minnkandi eftirspurn í alþjóðahagkerfinu grafi nú undan efnahagsstöðunni á evrusvæðinu.

Hún spáir að samdráttarskeið muni hefjast í Þýskalandi á yfirstandandi ársfjórðungi og svipuð örlög bíða spænska og breska hagkerfisins fyrir árslok.

Framkvæmdastjórnin spáir 1,4% hagvexti fyrir öll ESB-löndin í ár en hún hafði spáð 2% hagvexti í apríl. Aðeins er spáð 1,3% hagvexti á evrusvæðinu en áður hafði verið spáð 1,7% hagvexti. Verðbólga lækkaði á evrusvæðinu frá júlí til ágúst og fór hún 4% niður í 3,8%.

Þrátt fyrir þessa staðreynd auk vísbendinga um að verðbólguvæntingar séu á niðurleið á svæðinu hefur framkvæmdastjórnin hækkað verðbólguspá sína fyrir árið. Nú spáir hún 3,8% verðbólga en hafði áður gert ráð fyrir 3,6% á þessu ári.

Hinsvegar gerir framkvæmdastjórnin ráð fyrir að verðbólga muni hjaðna á næstu misserum og það ásamt gengisveikingu evrunnar muni styðja við bakið á hagvexti til lengri tíma litið.