Hægt gæti á hagvexti á evrusvæðinu á árinu 2008 umfram það sem áður hefur verið spáð að sögn Jean-Claude Juncker sem situr í forsæti fyrir samráðshóp fjármálaráðherra aðildarríkja svæðisins. Sagði hann ennfremur að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins teldi nú að hagvöxtur evrusvæðisins yrði á bilinu 1,8 til 1,9% á árinu miðað við fyrri spá upp á 2,2 til 2,4%.

Aðrir leiðtogar innan Evrópusambandsins hafa lýst áhyggjum sínum að undanförnu vegna veikrar stöðu bandaríska hagkerfisins og sterkrar stöðu evrunnar að sögn Reuters fréttastofunnar.   Sterk staða evrunnar hefur dregið úr samkeppnishæfni útflutningsaðila á evrusvæðinu að sögn forsvarsmanna ýmissa fyrirtækja sem og stjórnmálamanna í aðildarríkjum svæðisins.

„Ég viðurkenni að styrkur evrunnar veldur vandamálum og áhyggjum á ýmsum sviðum,” sagði José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, en bætti því við að sterk staða þýskra útflutningsgreina sýndi að evrusvæðið væri enn samkeppnishæft. Sagði hann sterka stöðu evrunnar sýna það traust sem evusvæðið nyti.   Yfirmaður efnahags- og peningamála í framkvæmdastjórninni, Joaquin Almunia, varaði hins vegar við því að fylgjast yrði vel með evrunni. „Núverandi gengi evrunnar er nálægt sögulegu hámarki og við verðum að vera mjög vel á verði,” sagði hann við blaðamenn í dag.