Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri Garðabæjar og forsvarsmenn Akralands þróunarfélags og Arnarlands eignarhaldsfélags undirrituðu í gær og kynntu samstarfssamning um uppbyggingu og gatnagerð í nýju byggingarlandi
á Arnarneshálsi í Garðabæ. Samningurinn er tvíþættur, annars vegar um uppbyggingu og áfangaskiptingu byggingasvæðisins og hins vegar samningur um gatnagerð og frágang opinna svæða og leikvalla.

Óhætt er að segja að byggingarlandið sé á einum besta stað á höfuðborgarsvæðinu, í skjólgóðu umhverfi á frjósömu og gróðurmiklu svæði. Það er í eigu Akralands, sem er með 139 einbýlishúsalóðir og Arnarlands, sem er með 333 íbúðir í fjölbýlishúsum. Norðan Arnarnesvegar á Akraland 10,5 hektara lands sem enn hefur ekki verið deiliskipulagt.

Akrahverfi liggur sunnan við Arnarnesveg. Það markast af Bæjarbraut í austri, að norðan við Arnarneslæk og að vestan markast það af Hafnarfjarðarvegi. Í suðurjaðri svæðisins við Arnarneslæk er fyrirhugað útivistarsvæði og frá því liggja opin svæði sem teygja sig upp í byggðina. Svæðið er vel staðsett með tilliti til vegtenginga; Arnarnesvegur mun tengjast Suðurlandsvegi og þannig er örskotsleið úr Akrahverfi í Bláfjöll og áfram til austurs og vesturs. Fljótfarið er í miðborg Reykjavíkur og sömuleiðis stutt í útivistarperlur eins og Heiðmörk, Vífilsstaðavatn og Álftanes.