Unnið er hörðum höndum við byggingu aflþynnuverksmiðju Becromal á Akureyri sem stefnt er að því að fari í gagnið næsta vor.

Að sögn Eyþórs Arnalds, framkvæmdastjóra Strokks Energy ehf., sem hefur haft milligöngu um uppsetningu verksmiðjunnar, vinna nú á milli 50 og 60 manns við að reisa verksmiðjuna.

Fjárfesting vegna verkefnisins er upp á 80 milljónir Bandaríkjadala.

Samkvæmt samningnum við orkufyrirtæki eru Becromal tryggð kaup á 75 MW afli en orkuþörf verksmiðjunnar verður um 640 GWh á ári í upphafi. Ekki reynist þörf á að virkja vegna orkusölunnar.

Aflþynnuframleiðslan losar ekki gróðurhúsalofttegundir og skapar um 90 ný störf á næsta ári en um er að ræða fyrsta áfanga. Orkuverð skiptir miklu máli við framleiðslu aflþynna, en orkan er ríflega 40% af kostnaði við framleiðslu á 600 volta þynnu.

,,Það er mjög skammur tími síðan skrifað var undir raforkusamninginn við Landsvirkjun eða 14. ágúst í fyrra. Þar af leiðandi er þetta búið að ganga mjög vel og hratt miðað við aðrar stóriðjuáætlanir þar sem oft getur tekið fleiri ár að taka ákvörðun og ná raforkusamningum eða fást við umhverfismálin. Þetta er græn stóriðja þannig að við höfum ekki verið að fara í mjög erfitt ferli með umhverfismál. Síðan hefur náðst mjög gott samstarf við Akureyrarbæ, Norðurorku, Akureyrarhöfn og fleiri sem eru að vinna að þessu með okkur,” segir Eyþór.

Miklar framkvæmdir eru á svæðinu núna og má nefna stóra spennistöð sem dótturfélag Norðurorku er að reisa og svo er verið að reisa mikla sjódælustöð í samstarfi við Akureyrarhöfn. Í gegnum hana verður dælt meira vatni en í Glerá.

Að sögn Eyþórs hafa framkvæmdir gengið vel og óverulegar tafir orðið á verkinu.

Aflþynnur nefnast á ensku "capacitators" og eru notaðar í allar gerðir rafeindabúnaðar, þar á meðal öryggisbúnað bíla, sólarsellur til raforkuvinnslu, flatskjái, tölvur og síma.

Framleiðsla þeirra er mjög orkufrek og krefst 250-300 kWst orkunotkun fyrir hvert kíló af aflþynnu-áli, samanborið við 13 kWst til framleiðslu á hrááli í álverum.

Verksmiðjunni hefur verið valinn staður á iðnaðar- og hafnarsvæðinu Krossanesi, sem stendur í Norðurhluta Akureyrarbæjar.