Starfsmenn Ístaks hf. byrja núna í vikunni að leggja slóða vegna væntanlegra háspennulína úr Fljótsdal til álvers Fjarðaáls við Reyðarfjörð. Fjarðabyggð hefur gefið út tilskilið framkvæmdaleyfi Landsvirkjun til handa og fyrst verður lagður vegslóði vegna línuleiðar frá Hrauni (þar sem álverið á að rísa) að Seljateigi við Reyðarfjörð. Fljótsdalslínur 3 og 4 verða lagðar rúmlega 50 kílómetra leið um þrjú sveitarfélög: Fjarðabyggð, Austur-Hérað og Fljótsdalshrepp. Fjarðabyggð var fyrst sveitarfélaganna þriggja til að gefa út framkvæmdaleyfi. Slíkt erindi er til meðferðar í umhverfisráði Austur-Héraðs og fer þaðan fyrir bæjarstjórn. Hreppsnefnd Fljótsdalshrepps tekur málið fyrir á fundi 7. september nk.

Landsvirkjun hefur samið við flesta eigendur lands á leið háspennulínanna en við nokkra þeirra náðist ekki samkomulag. Fyrirtækið óskaði þá eftir því við iðnaðarráðuneytið að fá leyfi til eignarnáms. Veiti ráðuneytið slíka verður deilumálunum vísað til matsnefndar eignarnámsbóta sem kveður upp úrskurð um bætur til landeigenda. Tekið skal fram að framkvæmdir, sem eru nú að hefjast við Reyðarfjörð, eru einvörðungu á landi sem um hefur samist við eigendur og í samræmi við útgefið framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins.

Landsvirkjun gerir ráð fyrir því að unnið verði við slóðagerðina í haust og fram á vetur. Seint á árinu verða boðnar út framkvæmdir við undirstöður mastra Fljótsdalslína 3 og 4 og síðan verður af krafti við að leggja þær sumarið 2005 og 2006.

Áætlaður kostnaður við flutningsvirki vegna Fjarðaáls er alls tæpir 9 milljarðar króna, þar af 4,4 milljarðar vegna sjálfra línulagnanna, um 3 milljarðar vegna tengivirkis í Fljótsdal og 1,2 milljarðar króna vegna tengingar við byggðalínur og styrkingar á hinu almenna raforkuflutningskerfi á Austurlandi.

Landsvirkjun hefur samið við fyrirtækjasamsteypuna FSJV um eftirlit með byggingu Fljótsdalslína 3 og 4. FSJV er í eigu fjögurra íslenskra fyrirtækja, (Almennu verkfræðistofunnar, Hönnunar, Rafhönnunar og VSÓ Ráðgjafar) og þýska fyrirtækisins Lahmeyer International.
Sömu fyrirtæki annast eftirlit með framkvæmdum í Fljótsdal vegna Kárahnjúkavirkjunar og stofnuðu fyrirtækjasamsteypuna KSJV um það verkefni, Kárahnjúkar Supervision JV.