Úrskurðarnefnd skipulags og byggingarmála hefur fellt byggingarleyfi vegna framkvæmda Andra Más Ingólfssonar, forstjóra Heimsferða við nýtt hótel hans í Eimskipafélagshúsinu. Framkvæmdir hafa verið stöðvaðar og ekki er vitað nákvæmlega hvenær aðgerðir geta hafist á ný. Nágrannar kærðu ákvörðun byggingafulltrúa um að veita takmarkað byggingarleyfi fyrir framkvæmdinni og telur úrskurðarnefndin að ekki hafi verið farið að lögum við útgáfu leyfisins og afgreiðslu þess hafi verið verulega áfátt.

Andri Már Ingólfsson, forstjóri Heimsferða, segist í samtali við Viðskiptablaðið í dag ekki hafa áhyggjur af stöðunni. "Um er að ræða afgreiðslumál hjá borginni sem verður fundað um í dag, miðvikudag. Um var að ræða kynningarferli vegna sameiningu lóða sem var ekki full lokið sem mér skilst að sé lokið núna. Ég á ekki vona á öðru en að borgin klári sín innanhúsmál og allt verði í himnalagi," segir Andri. Hann segir að hans fólk hafi lagt inn öll gögn, teikningar og aðra tilskylda pappíra samkvæmt forskrift. "Bæði arkitektarnir okkar og VSO, sem hafa haldið utan um framkvæmdirnar, hafa staðið sig með prýði hvað varðar frágang og höfum við gert allt samkvæmt bókinni," segir Andri. Hann segist þó ekki vilja gagnrýna neinn í þessu máli. "Það fer alltaf eitthvað úrskeiðis þegar menn standa í stórræðum. Ég hef aldrei fundið nema velvilja og ánægju með að fá þessa starfsemi niður í miðbæ og aldrei fengið neitt nema stuðning frá borginni með framkvæmdina. Ég treysti því að borgin lagi sín mál innanhúss svo ferlið gangi áfram snuðrulaust" segir Andri í Viðskiptablaðinu.

En náið þið að opna í vor eins og til stóð? "Já, enn stendur til að opna í apríl á næsta ári og er ég full viss um að það náist. Þetta hefur engin áhrif á framkvæmdirnar sem hafa gengið eins og í sögu hingað til," segir hann.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.