*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 9. febrúar 2006 15:02

Framkvæmdir við kalkþörungaverksmiðjuna hefjast að nýju

Ritstjórn

Framkvæmdir við byggingu kalkþörungaverksmiðju á Bíldudal hefjast að nýju á næstu dögum en framkvæmdirnar hafa tafist um þrjá mánuði. Í frétt á vef héraðsfréttablaðsins Bæjarins besta á Ísafirði kemur fram að endanleg fjármögnun er ekki í höfn en þó hefur fengist nægt fjármagn til að hefja framkvæmdir á ný.

Í frétt BB er haft eftir Sigurði Helgasyni, framkvæmdastjóra Björgunar ehf. sem er stór hluthafi í Icelandic Sea Minerals sem byggir verksmiðjuna, að það liggi inni umsókn hjá Byggðastofnun en þar til við þeir fá svar hafa þeir fengið millifjármögnun og geta því farið af stað aftur.

Áætlað er að verksmiðjan taki til starfa seinnipart sumars og er málið í réttum farvegi. Búið er að kaupa öll tæki og er framleiðslustjóri erlendis að fara yfir þau og hvernig eigi að setja þau upp. Þá er einnig búið að kaupa stálgrindarhús frá fyrirtækinu Butler, en eftir er að setja það upp segir í frétt BB.

Fyrirtækið Celtic Sea Minerals er aðaleigandi verksmiðjunnar sem rísa mun á Bíldudal. Fyrirtækið á einnig kalkþörungaverksmiðju í bænum Castletownbere á Írlandi sem hefur verið keyrð á fullum afköstum undanfarið og hefur verið fengið til þess efni úr Arnarfirði. Þegar verksmiðjan á Bíldudal kemst í gagnið mun hún bera þungann af framleiðslu Celtic Sea Minerals.