AVS rannsóknarsjóðurinn mun á næsta ári hafa meira fjármagn til ráðstöfunar en áður, eða 335 milljónir króna fyrir árið 2008. Um er að ræða 100 milljónum króna hærri upphæð en fyrir árið 2007. Þá er stefnt að því að AVS sjóðurinn starfi að minnsta kosti til 2014, að því er fram kemur í nýsamþykktum fjárlögum fyrir árið 2008. Jafnhliða hefur verið ákveðið að hækka hámarksstyrki úr 6 milljónum króna í 8 milljónir króna. Í frétt á heimasíðu sjóðsins kemur fram að styrkir geta þó orðið hærri í sérstökum og viðamiklum öndvegisverkefnum.

Ráðgert er að sjóðurinn verði starfræktur að minnsta kosti til ársins 2014. AVS sjóðurinn var stofnaður árið 2003 og upphaflega var gert ráð fyrir að hann yrði einungis starfræktur til fimm ára. Í fjárlögum eru fyrri áætlanir lagðar til hliðar og sjóðurinn festur í sessi. Þetta er mikil viðurkenning á starfsemi sjóðsins og greinilegt að hún og stuðningur sjóðsins hefur fallið í góðan jarðveg.

Á næsta ári er sjóðnum ætlað að styrkja kynbætur í þorskeldi um 25 milljónir króna og markaðsátak vegna bleikjuafurða um 10 milljónir króna. Þá verða til úthlutunar um 300 milljónum króna til annarra verkefna sem auka verðmæti sjávarfangs. Auk þessa hefur sjóðurinn úthlutað styrkjum vegna eldis sjávardýra samtals 19,1 milljónum króna.

Aðrar breytingar á starfsemi sjóðsins verða þær að markaðsverkefni verði metin í samvinnu við aðra faghópa. Af þeim sökum verður ekki starfræktur sérstakur markaðshópur sem metur slík verkefni án þátttöku annarra faghópa. En áfram verður lögð áhersla á að markaðsverkefni berist sjóðnum segir í frétt á heimasíðu sjóðsins.