Skattkerfisbreytingar á alltaf að ræða enda þarf að vera skýr réttlæting fyrir hvers kyns skattheimtu. Framlag Viðskiptaráðs er þó ekki framlag til umræðu um skatta heldur lymskulegt áróðursbragð til að drepa umræðunni á dreif og vinna málstaði fylgis er gengur út á að hlífa ákveðnum aðilum við skattheimtu.

Huginn Freyr Þorsteinsson
Huginn Freyr Þorsteinsson
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Þetta segir Huginn Freyr Þorsteinsson, fyrrum aðstoðarmaður fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Huginn fjallar um nýlega úttekt Viðskiptaráðs þar sem fjallað er um skattabreytingar eftir hrun.

„Búið er að ganga of langt í skattheimtu og merki þess farin að sjást í hagkerfinu. Lausnin á vandanum er svo gamalkunnug en hún er að leyfa gróðanum að njóta sín þannig að hagkerfið fái súrefni til að dafna aftur,“ segir í inngangi greinarinnar.

„Vandinn við þessa mynd Viðskiptaráðs er þó margvíslegur en aðallega sá að hún er einföldun. Ýmsa skatta er búið að hækka en aðra skatta er búið að lækka. Margar þær skattabreytingar sem ráðið tiltekur hafa snúist um að halda krónutölusköttum í takti við verðlag. Svo eru aðrir möguleikar til. Fyrirtæki sem vilja fjárfesta á Íslandi geta fest sig í ákveðinni skattprósentu til langs tíma og varið sig þannig gegn mögulegum skattahækkunum. Sömu aðilar geta jafnframt notað ýmsa skattaafslætti eða fengið önnur gjöld niðurfelld.“ Huginn nefnir sem dæmi að Elkem hafi ekki borgað tekjuskatt í mörg ár. Þá hafi álverin borgað 300 milljónir í tekjuskatt fyrir árið 2009 og sjávarútvegurinn í heild greiddi 1,4 milljarða fyrir árið 2010. Hann spyr hvort það sé íþyngjandi. Sömuleiðis hafi skattbyrði lægstu launa lækkað eftir hrun og persónuafsláttur hækkað.

„Við eigum það líka sameiginlegt með frændum okkur Írum að hafa fylgt hugmyndafræðilegri pólitík Viðskiptaráðs í skattlagningu um árabil. Og bæði löndin enduðu á sama stað í efnahagslegu tilliti með froðuhagkerfi sem hrundu á einni nóttu,“ segir í greininni. Að mati Hugins er Ísland fyrir hrun dæmi um samfélag þar sem hinir sterkefnuðu borguðu minna til samfélagsins en hinir efnaminni. „Með bellibrögðum tókst að sannfæra fólk um að ákjósanlegt væri að hlífa auðfólki við skattlagningu en venjulegir borgarar skyldu standa undir kerfinu. Þess vegna gátu þessir aðilar fengið rapparann 50 cent sjálfan í afmælið sitt eða Elton John í stað þess að láta DVD diskinn nægja. Fjármagn var með pólitískri leiðsögn flutt frá samfélaginu til auðmanna og völdin fylgdu með.“

Grein Hugins Freys má lesa í heild hér .