Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar Alþingis, segir í samtali við Morgunblaðið að það muni skýrast í janúarmánuði hvenær þingsályktunartillaga kemur fram um að draga til baka aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær að utanríkisráðherra myndi bráðlega leggja fram aðra þingsályktunartillögu um að draga umsóknina til baka. „Það eru engin óvænt tíðindi að forsætisráðherra segi að það séu líkur á því að það komi fram ný þingsályktunartillaga í þinginu um að draga aðildarumsóknina frá 2009 til baka, það gerðu flestir ráð fyrir því,“ segir Birgir.

Birgir segir einnig að ljóst sé að ef einhver ríkisstjórn eða meirihluti á þingi vildi hefja viðræður að nýju þyrfti að fara í gegnum alla þá kafla sem þegar er búið að fjalla um, þ.e. hvað breyst hefur í millitíðinni, þar sem tvö ár séu liðin síðan síðasta ríkisstjórn gerði hlé á viðræðunum.