Hagnaður Vinnslustöðvarinnar á fyrsta ársfjórðungi var 765 milljónir króna, sem er mikil breyting frá sama tímabili í fyrra þegar tap nam 213 milljónum króna.  Heildartekjur félagsins voru 1.750 milljónir króna en 1.769 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.

Tekjur fiskvinnslu stóðu nánast í stað en tekjur útgerðar jukust. Rekstrargjöld lækkuðu um 200 milljónir króna eða úr 1.359 milljónum króna í fyrra í 1.159 milljónir króna nú.

Framlegð félagsins (hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði) nam tæplega 592 milljónum króna og jókst um 44% frá fyrra ári. Framlegðarhlutfall hækkaði úr 23,2% í fyrra í 33,8% í ár. Þess ber að geta að söluhagnaður af seldum aflaheimildum að upphæð 33 milljónir króna er færður meðal tekna.

Veltufé frá rekstri nam 366 milljónum króna, sem jafngildir 21,6% af rekstrartekjum. Það jókst um 318 milljónir króna frá fyrra ári eða um 15,3%.

Afskriftir voru tæpar 106 milljónir króna og jukust um 21 milljón króna frá fyrra ári.

Tekjur Hugins ehf., hlutdeildarfélags Vinnslustöðvarinnar, voru 284 milljónir króna og framlegð þess á tímabilinu var 75 milljónir króna. Hagnaður félagsins, eftir skatta, nam 114 milljónum króna. Hlutdeild Vinnslustöðvarinnar í þeim hagnaði var tæpar 55 milljónir króna.

Tekjur About Fish ehf., hlutdeildarfélags Vinnslustöðvarinnar, voru 445 milljónir króna og framlegð þess 10 milljónir króna. Hagnaður félagsins, eftir skatta, nam tæpum 3 milljónum króna og var hlutdeild Vinnslustöðvarinnar í þeim hagnaði tæpar 1,3 milljónir króna.

Niðurstaða fjármagnsliða var jákvæð um 378 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi. Gengishagnaður var 427 milljónir króna, sem skýrist af áhrifum styrkingar krónunnar á skuldir félagsins. Á sama tímabili í fyrra voru
fjármagnsliðir neikvæðir um 517 milljónir króna.

Reiknaður tekjuskattur á tímabilinu var 156 milljónir króna.