*

laugardagur, 28. nóvember 2020
Innlent 28. október 2020 16:28

Framlegð eykst en hagnaður minnkar

Framlegð Skeljungs á þriðja ársfjórðungi nam 2,7 milljörðum króna. Hagnaður nam 470 milljónum.

Ritstjórn
Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs.
Eyþór Árnason

Skeljungur hagnaðist um 470 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi. Það er fjórðungssamdráttur milli ára en félagið hagnaðist um 626 milljónir á sama tímabili árið 2019. Rekstrarhagnaður Skeljungs dróst saman um sambærilegt hlutfall og nam 707 milljónum á fjórðungnum. Það sem af er ári hefur Skeljungur hagnast um 744 milljónir, samanborið við 1,3 milljarða króna hagnað á sama tímabili fyrra árs.

Framlegð nam um 2,7 milljörðum króna og jókst á milli ára þar sem bæði sala og kostnaðarverð seldra vara dróst saman um meira en fimmtung. Það sem af er ári nemur sala félagsins rúmlega 32 milljörðum. Þar af eru 13 milljarðar vegna bensíns og eldsneytis. Aðrar vörur var eini söluflokkur Skeljungs þar sem sala jókst á milli ára á fyrstu níu mánuðum ársins, úr tæplega fjórum milljörðum í um sjö milljarða.

Laun og launatengd gjöld var stærsti útgjaldaliður Skeljungs sem og sá sem jókst mest milli ára. Hann nam tæplega 950 milljónum á liðnum fjórðungi. Félagið greiddi út 600 milljónir króna í arð á tímabilinu.

Skeljungur gekk frá nýjum samning við Costco um sölu á eldsneyti til félagsins. Skeljungur hefur séð um eldsneytissölu til Costco frá því að verslunin kom til landsins.

Í lok þriðja ársfjórðungs voru eignir félagsins virði rúmlega 27 milljarða króna. Þar af eru ellefu milljarðar rekstrarfjármunir. Skuldir nema um sautján milljörðum, þar af tæplega tíu milljarðar skammtímaskuldir. Eigið fé nemur tíu milljörðum króna og eiginfjárhlutfall félagsins var 37%.

Sjóðstreymi Skeljungs var jákvætt á tímabilinu um 753 milljónir króna en neikvætt um 119 milljónir fyrir ári síðan. Handbært fé í lok þriðja ársfjórðungs 2020 nam ríflega 1,3 milljörðum króna.

Hluti starfsemi Skeljungs undir högg að sækja

Fram kemur í árshlutauppgjörinu að „hluti starfsemi Skeljungs á Íslandi á undir högg að sækja vegna fækkunar ferðamanna á komandi mánuðum, minni flugsamgangna og almennrar óvissu í efnahagslífinu.“ Enn fremur að áhrif Covid-19 á rekstur samstæðunnar eru óljós, bæði til skemmri og lengri tíma.

Fram kemur að reksturinn í Færeyjum er ekki háður ferðamönnum, nema að mjög takmörkuðu leyti. Enn fremur hefur danska krónan styrkst gagnvart íslensku krónunni sem hefur jákvæð áhrif á rekstrarreikning samstæðunnar.

Það sem af er ári eru tekjur Skeljungs í Færeyjum tæplega tólf milljarðar króna eða um þriðjungur af heildartekjum Skeljungs á téðu tímabili.