Hið nýstofnaða fyrirtæki Fíusól ehf., stefnir m.a. á framleiðslu sjónvarpsþátta og netleikja, byggða á sögupersónum barnabókanna Fíusól, eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttir rithöfund. Hugmyndin verður útfærð þannig að hægt sé að dreifa efninu á helstu miðlum og á erlendan markað, að sögn aðstandanna verkefnisins. Fjórða Fíusólarbókin kemur út í haust.

Á bak við fyrirtækið standa fimm einstaklingar: Kristín Helga Gunnarsdóttir, Halldór Baldursson sem er teiknari sögupersónunnar, Maríanna Friðjónsdóttir, Kristín Erna Arnardóttir og Katrín L. Ingvadóttir.

Verið er að ganga frá umsóknum til erlendra sjóða. Maríanna, sem er einn af framleiðendunum, vill í samtali við Viðskiptablaðið ekki nota orðið „styrkur“ um fjármagn frá sjóðum, heldur fjárfestingu, enda skili fjárfesting í íslenskri menningu sér á góðum vöxtum.

„Næsta skref er að kynna verkefnið fyrir fjárfestum á almennum markaði. Við viljum helst komast í samstarf við viðskiptaengla eða fjárfesta sem vilja fjárfesta í arðvænni íslenskri menningu til útflutnings. Og það væri ekki verra ef sá fjárfestir væri kona, sem réði yfir vitrænum peningum,“  segir Maríanna.

Hugmyndina að fyrirtækinu kviknaði seint á síðasta ári. „Við Kristín Erna og Katrín vorum að ljúka samvinnuverkefni og vorum að velta fyrir okkur hvað væri gaman að gera næst. Við höfðum samband við Kristínu Helgu, sem við allar þekkjum frá fyrri tíð, og komumst að samkomulagi um að markaðurinn væri tilbúinn að taka við Heimi Fíusólar,“ segir Maríanna.

Hún segir þær allar hafa áhuga á jákvæðni sem stuðli að uppbyggjandi ímyndarþroska hjá börnum og unglingum og þá sérstaklega stúlkum. „Allir þurfa á jákvæðri ímynd að halda. Flestöll börn á Íslandi þekkja Fíusól, þessa sterku ungu kvenímynd, sem kemur sér í endalaus vandræði, en þarf að leysa úr þeim sjálf og lærir af því í leiðinni á skemmtilegan hátt.“