Kanadíska fyrirtækið QuestAir Technologies Inc. greindi frá því á mánudag að það myndi útvega hreinsibúnað fyrir nýja vetnisstöð (AC Transit Hydrogen Energy Station) sem ChevronTexaco Hydrogen Company er að reisa í Oakland í Kaliforníu. Í þessari stöð verður framleitt vetni sem unnið er úr náttúrulegu gasi.

Hreinsað vetni frá þessari stöð mun knýja efnarafala í þrem 40 feta strætisvögnum. Verða vagnarnir teknir í notkun síðar á þessu ári og í byrjun næsta árs um leið og floti léttari bifreiða sem knúnar verða á sama hátt. Stöðin sem hér um ræðir á einnig að geta framleitt rafmagn úr vetninu sem hreinsað er úr gasi í stöðinni. Vetni er sem kunnugt er einnig notað á sama hátt til að knýja tilraunastrætisvagna í Reykjavík, en munurinn er sá að þeir ganga á vetni sem er unnið með rafgreiningu á vatni.

QuestAir Technologies Inc. er staðsett á vesturströnd Kanada, en hefur verið með þróunarsamning við Exxon og Shell. Það hefur m.a. sérhæft sig framleiðslu á búnaði fyrir olíuhreinsunarstöðvar til hreinsunar á náttúrugasi. Einnig framleiðir það búnað til hreinsunar á lífrænu gasi eða svokölluðu biogasi. Þá hefur fyrirtækið þróað hreinsunarbúnað (H-3200 hydrogen purifier) til að vinna hreint vetni úr gasi til að nota í efnarafölum til raforkuframnleiðslu.

Vetnisstöðin í Okland er sjöunda vetnisstöðin í heiminum sem byggir á tækni QuestAir. Að sögn talsmanns fyrirtækisins er um mjög þróaða tækni að ræða til að framleiða vetni á hagkvæman hátt úr náttúrugasi með fyrirferðarlitlum tækjabúnaði. Síðan framleiðsla hófst á þessum búnaði árið 2003 þá hefur fyrirtækið selt 24 einingar af H-3200 til viðskiptavina í Evrópu, Japan og Norður-Ameríku.