Samningur Mjólkursamsölunnar sem skrifað var undir í dag um framleiðslu- og vörumerkjasamning á Ísey skyri við Nippon Luna, er stærsti samningur sem fyrirtækið hefur gert hingað til á skyri erlendis. Stefnt er að því að framleiðsla geti hafist í haust og sala strax á næsta ári, en félagið hefur einnig gert svipaðan samning við framleiðanda í Ástralíu og Nýja Sjálandi.

Nippon Luna er mjólkurvörufyrirtæki í eigu Nippon Ham, sem er eitt stærsta fyrirtæki Japans á sviði ferskra og frosinna matvæla og jafnframt fjórði stærsti kjötframleiðandi heims. Nippon Ham veltir þrettán hundruð milljörðum íslenskra króna á ári og hefur miklar væntingar um að Ísey skyr eigi eftir að styrkja stöðu þeirra á japanska mjólkurvörumarkaðnum.

Næst stærsti jógúrtmarkaður heims

Ari Edwald forstjóri MS segir þetta mikið tækifæri fyrir fyrirtækið en framleitt verður úr japanskri mjólk.

„Við notum íslenskar framleiðsluaðferðir, uppskrift og auðvitað gerilinn okkar, en Nippon ætlar að byggja sérstaka verksmiðju fyrir skyrframleiðsluna sem verður tilbúin í haust,“ segir Ari en gert er ráð fyrir að framleiðslan og salan á skyri undir vörumerki Ísey hefjist snemma á næsta ári.

„Japan er næst stærsti markaður heims á eftir Bandaríkjamarkaði fyrir jógúrtvörur í heiminum, þó við að sjálfsögðu lítum á Skyr sem sérstakan flokk út af fyrir sig. Veltir Japansmarkaður 5 milljörðum Bandaríkjadala á ári en sá bandaríski um 7 milljörðum.

Þetta fyrirtæki sem við erum að semja við er kannski svipað að stærð og Mjólkursamsalan eitt og sér, en þetta er dótturfélag Nippon Ham sem er gríðarstór fyrirtæki og með sterka stöðu á markaði og í dreifingu gagnvart fjölda verslana. Þannig að við höfum trú á því að þetta geti náð mjög miklum árangri á næstu árum.“

Skyrið komist í 70 þúsund verslanir

Samningurinn var undirritaður í höfuðstöðvum Nippon Ham í dag af forstjórum Nippon Luna, MS og íslensk japanska fyrirtækisins Takanawa sem kom að gerð samningsins með MS og mun sjá um framkvæmd hans í framtíðinni. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra Íslands og Elín Flygenring, sendiherra Íslands í Japan, voru viðstödd undirritunina.

Í Japan búa um 127 milljónir og þar eru 70.000 matvöruverslanir, en markmiðið er að koma Ísey skyri í sem flestar verslanir í Japan á næstu árum. „Það hefur lengi verið áhugi á skyri í Japan og borist fjöldi fyrirspurna í sendiráðið, svo við höfum unnið mjög markvisst að þessu núna í tvö ár,“ segir Ari en fulltrúi MS fór um Japan árið 2016 og hitti fjölmörg fyrirtæki.

„Það sem er ánægjulegt með að ná samningi við þetta fyrirtæki er að þeir höfðu líka fylgst með Mjólkursamsölunni um þónokkuð skeið og vissu alveg hvað skyrið var. Þeir höfðu sérstakan áhuga á að leita til Mjólkursamsölunnar með samstarf og vorum við náttúrulega upp með okkur út af því.“

Japan, Ástralía og Nýja Sjáland stökkpallar á fleiri markaði í kring

Ari segir að Japan geti síðan verið stökkpallur á fleiri markaði þarna í kring, en sama eigi við um framleiðsluna í Ástralíu og Nýja Sjálandi.

„Japanir eru leiðandi í nýjungum á markaði í þessum löndum þarna í kring, þeir setja svolítið trendið. Við vitum að mörg önnur Asíuríki og þjóðir horfa til Japan þannig að við höldum að þetta geti líka opnað leiðir og styrkt stöðu okkar í öðrum Asíulöndum,“ segir Ari, en sama á við um samninginn við dreifingaraðila í Ástralíu og á Nýja-Sjálandi.

„Það er að koma ár síðan við skrifuðum undir þá samninga en þeir eru á svipuðum stað með tímasetningu á framleiðslu sem gert er ráð fyrir að geti einnig farið af stað í upphafi næsta árs. Þaðan er nú almennt mikið flutt út af vörum á Kyrrahafssvæðið og til suðaustur Asíu.“

Nýlega fjallaði tímarit í eigu 7-11, stærstu verslunarkeðju Japans, um Ísey skyr þar sem vörunni var lýst á þann hátt að hér væri komin sú vara sem helst vantaði á japanska mjólkurvörumarkaðinn. Árið 2020 verða Ólympíuleikarnir haldnir í Tókýó og er von samstarfsaðila MS í Japan að fyrir þann tíma verði Ísey skyr orðið hluti af mataræði japanskra íþróttamanna.