*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 5. maí 2018 18:35

Framleiða þrívíddarlinsur

Sprotafyrirtækið Kúla stefnir á að setja þrívíddarlinsu á alþjóðlegan markað í maí.

Ísak Einar Rúnarsson
Íris Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Kúlu.
Aðsend mynd

Nýsköpunarfyrirtækið Kúla fékk nýlega samtals 30 milljóna króna fjárfestingu frá fjórum félögum til þess að klára nýja vöru og koma henni á markað. Það hefur félagið nú gert en varan er þrívíddarlinsa sem hægt er að festa á snjallsíma. „Þetta er þrí- víddarlinsa sem byggir á speglakerfi. Þetta eru fjórir speglar sem varpa tveimur myndum hlið við hlið inn í linsuna en svo erum við með hugbúnað sem vinnur úr þessu og býr til öll þrívíddarsnið- mát,“ segir Íris Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri og stofnandi Kúlu.

Áður hafði félagið gefið út þrívíddarlinsur á SLR vélar. „Hún er í sölu meðal annars í BH myndavélaversluninni í New York en núna erum við að setja fram nýja vöru sem er meira hugsuð fyrir fjöldamarkað,“ segir Íris.

Nýja linsan fyrir farsíma hefur þó aðeins verið gefin út hér á landi enn sem komið er. „Hún fæst í verslunum Vodafone en við erum ekki búin að opna fyrir alþjóðlega sölu, það gerist ekki fyrr en í maí. Það eru margir að bíða eftir því að fá að geta keypt vöruna þannig að við ætlum að byrja á því að selja hana á Íslandi. Það er önnur leið en við fórum með hitt tækið sem fór beint á alþjóðlegan markað. Það er líka af því að þetta er meira fyrir alla.

Aðspurð segir hún fyrirtækið ekki vera komið með dreifingarsamninga. „Það er hreinlega af því að þeir hafa ekki haft færi á því að skoða endanlega vöru. Yfirleitt eru ekki gerðir dreifingarsamningar fyrr en endanleg vara er komin í hendurnar á dreifingaraðilum en við erum að vinna í því þessa dagana.

Við erum að vonast til þess að boltinn fari af stað núna og að við þurfum að fara í næstu framleiðslulotu sem fyrst,“ segir Íris og bætir við að markmiðið sé að gefa fólki tækifæri á að uppgötva þrívíddarformið. „Nýju vörunni er ætlað að sýna fólki fram á að það er rosalega gaman að taka þrívíddarmyndir og í rauninni er okkar hugsjón að gera fólki mögulegt að uppgötva hvað það er  skemmtilegt að eiga eigin þrívíddarmyndir af fjölskyldu og vinum.“

Brian May er í aðdáendahópi linsunnar

„Það er skemmtilegt að segja frá því að í vikunni prófaði Brian May, gítarleikari hljómsveitarinnar Queen, tækið en hann er mjög virkur í þrívíddarsamfélaginu í Bretlandi. Honum leist rosalega vel á þetta og birti mynd af sér tekna með Kúlu bebe á Instagram og hún hefur fengið töluverða athygli þar. Í kjölfarið hringdi ritarinn hans og bað um að fá eintak af tækinu fyrir hann sem við ætlum að sjálfsögðu að verða við,“ segir Íris.