Árið 2014 var finnska tölvuleikjaframleiðandanum Rovio ekki hagfellt, en tekjur fyrirtækisins lækkuðu úr 173,5 milljónum evra (um 25,6 milljarðar króna) árið 2013 i 158,3 milljónir evra í fyrra. Rekstrarhagnaður lækkaði úr 36,5 milljónum evra í tíu milljónir, að því er segir í frétt Wall Street Journal. Rovio er þekktast fyrir Angry Birds leikina fyrir snjallsíma og spjaldtölvur.

Til að bregðast við þessari þróun var 110 starfsmönnum fyrirtækisins, um 14% af heildarstarfsmannafjölda, sagt upp seint síðasta ár. Þá var skipt um forstjóra og tók Pekka Rantala við af Mikael Hed, en Rantala hafði áður unnið hjá Nokia.

Í umfjöllun Fortune segir að vandi Rovio stafi m.a. að því að fyrirtækið hefur verið tregt til að taka upp svokallað "freemium" viðskiptalíkan fyrir leiki sína, en það felur í sér að grunnleikurinn sjálfur er ókeypis, en hægt er að greiða fyrir alls kyns þjónustu í leiknum. Að mestu leyti hefur Rovio haldið sig við að selja leikina sjálfa.