Gengi bréfa bandaríska líftæknifyrirtækisins Moderna hefur hækkað þónokkuð í virði í kauphöllinni í New York frá því viðskipti hófust í dag, eftir að kanadíska ríkisstjórnin tvöfaldaði pöntun sína á bóluefni fyrirtækisins við Covid 19.

Þegar þetta er skrifað nemur hækkun bréfa félagsins 6,60%, og er gengið komið í 162,58 Bandaríkjadali.

Hækkunin byrjaði eftir að félagið tilkynnti að Kanada hefði nýtt valrétt sem gengið var frá í samningum félagsins við stjórnvöld í landinu um kaup á 20 milljón viðbótarskömmtun á bóluefni fyrirtækisins, svo heildarmagnið nemur 40 milljón skömmtum.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um þá var Moderna fyrsta félagið til að hefja klínískar rannsóknir á bóluefni sínu við CoV-SARS-19 veirunni sem veldur Covid 19 sjúkdómnum.

Módefni félagsins, sem rannsóknir benda til að skili 95% virkni , er byggt á sambærilegri tækni og bóluefni Pfizer, en bjartsýni jókst víða á mörkuðum eftir að það fyrirtæki tilkynnti um 90% árangur bóluefnis síns .

Bæði bóluefnin eru sögð þurfa að vera geymd í mun meiri kulda, með tilheyrandi vandamálum við flutninga, heldur en hefðbundin bóluefni, þó Moderna hafi sagt sitt bóluefni geta geymst ákveðið lengi í hefðbundnum kælum án þess að skaðast.

Moderna segist geta byrjað að koma bóluefni sínu, mRNA-1273, til kaupenda strax í þessum mánuði ef heilbrigðisyfirvöld gefa grænt ljós. Bóluefnin sem flutt verða til Kanada munu koma frá evrópskri framleiðslu fyrirtækisins.

Gengi bréfa félagsins hefur meira en tvöfaldast, eða um 148,6% á síðustu þremur mánuðum, á sama tíma og S&P 500 vísitalan hefur hækkað um 7,8% að því er fram kemur í umfjöllun MarketWatch .