Sigurður Óli Ólafsson tók í sumar við lyfjafyrirtækin Mallinckrodt sem var að koma úr tveggja ára greiðslustöðvun vegna bótamála tengdum ópíóðafaraldrinum líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í vikunni.

Fram að því hafði Sigurður stýrt samheitalyfjafyrirtækinu Hikma sem var í lykilhlutverki við að sjá Bandaríkjamönnum fyrir lyfjum sem nýttust í baráttunni við Covid-19. Sigurður tilkynnti nokkuð óvænt um starfslok sín hjá Hikma í vor og að hann hefði verið ráðinn forstjóri Mallinckrodt.

Undir stjórn Sigurðar hækkaði hlutabréfaverð í Hikma um meira en 100 prósent í Kauphöllinni í London á fjórum árum. Hikma velti jafnvirði um 350 milljarða íslenskra króna á síðasta ári og var með tæplega níu þúsund starfsmenn, yfir 670 vörur og 32 verksmiðjur og starfsemi í þrettán löndum.

Í viðtali The Times við Sigurð á síðasta ári var undir fyrirsögninni: „Trump’s medicine man rides the storm“ sagt frá því að Hikma hefði framleitt ellefu af þeim þrettán lyfjum sem gefin voru Covid-19 sjúklingum á gjörgæsludeildum í Bandaríkjunum. Meðal þeirra sem þáðu lyf við Covid-19 sem framleidd voru af Hikma var Donald Trump, þáverandi Bandaríkjaforseti. Trump fékk steralyfið dexamethasone en hann veiktist nokkuð alvarlega af veirunni í október árið 2020. Í viðtalinu sagði Sigurður frá því að vandasamt verk og mikil vinna hefði falist í að sjá öllum viðskiptavinum fyrir lyfjum er faraldurinn reið yfir.

Stýrði stærsta samheitalyfjaframleiðanda heims

Sigurður, sem er lyfjafræðingur að mennt frá Háskóla Íslands, á að baki áratuga stjórnunarferil í lyfjageiranum. Hann starfaði lengi af hjá Actavis og var m.a. um tíma forstjóri félagsins. Hann flutti sig hins vegar yfir til ísraelska lyfjarisans Teva árið 2014 og tók við stjórn samheitalyfjadeildar Teva, sem var sú stærsta í heimi undir stjórn Sigurðar, með um 15.000 starfsmenn.

Nánar er farið yfir málið og feril Sigurðar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út 22. september 2022.