Síðdegis síðastliðinn mánudag var framleiðslu Tesla bifreiða í Fremont-borg í Kaliforníu loks hætt, eftir að rafbílaframleiðandinn hafði þráast við í lengstu lög, þvert á tilskipanir stjórnvalda.

Til að bregðast við örri útbreiðslu kórónuveirunnar var útgöngubann sett á í sex sýslum í Kaliforníuríki á vesturströnd Bandaríkjanna – þar á meðal Alameda-sýslu, sem Fremont tilheyrir – í byrjun síðustu viku. Bannið nær til yfir 6,7 milljóna manna, og gildir í þrjár vikur.

Meðal þess sem í banninu felst er að aðeins „nauðsynleg“ (e. essential) fyrirtæki á borð við matvöruverslanir og apótek mega halda áfram starfsemi. Starfsmenn annarra fyrirtækja skyldu ekki mæta til vinnu.

„Bráðnauðsynleg starfsemi“
Staða Tesla var í upphafi nokkuð á reiki. Starfsmannastjóri félagsins sendi frá sér tölvupóst, þar sem fram kom að þrátt fyrir bannið hefðu alríkisyfirvöld fyrirskipað að öll starfsemi er lyti að bráðnauðsynlegri innviðastarfsemi (e. national critical infrastructure) yrði óröskuð. Bílaframleiðendur og orkuinnviðir væru bráðnauðsynleg bandarísku efnahagslífi samkvæmt skilgreiningu innanríkisráðuneytisins (e. Department of Homeland Security), og starfsemi Tesla félli þar undir.

Á þriðjudag, daginn sem tilskipunin tók gildi, hélt Tesla því áfram framleiðslu í verksmiðjunni, auk annarrar stoðstarfsemi henni tengdri á borð við flutninga íhluta og fullgerðra bifreiða. Starfsmönnum sem ekki tengdust framleiðslu með beinum hætti og gátu unnið að heiman var þó gert að vinna heima, og þeim sem mættu í vinnuna að fylgja leiðbeiningum sóttvarnayfirvalda, meðal annars að halda tveggja metra fjarlægð við aðra starfsmenn.

Fluttar voru fréttir af því framan af að áframhaldandi starfsemi Tesla bryti í bága við útgöngubannið, en fljótlega var haft eftir fógeta Alameda-sýslu að Tesla væri undanþegið og mætti starfa áfram. Síðar um daginn gaf embætti fógetans svo hins vegar út að rafbílaframleiðandinn væri ekki skilgreindur sem „nauðsynleg“ starfsemi, og skyldi hlíta banninu. Aðeins lágmarksstarfsemi mætti fara fram í verksmiðjunni, en framleiðsla bifreiða félli þar ekki undir.

Starfsemin óbreytt þrátt fyrir tilmæli fógeta
Þrátt fyrir þetta mættu starfsmenn til vinnu í þúsundatali morguninn eftir, og starfsemi verksmiðjunnar virtist halda áfram óbreytt, þótt starfsmönnum hafi að sögn verið gefið leyfi til að halda sig heima fyrir hefðu þeir áhyggjur af ástandinu. Vildu þeir fá greitt yrðu þeir þó að nota uppsafnaða frídaga. Aftur var sagt frá þessu í fjölmiðlum og skapaðist nokkuð fjaðrafok vegna málsins.

Á fimmtudeginum tilkynnti svo Elon Musk, forstjóri Tesla, að verksmiðjunni yrði lokað frá og með mánudeginum. Var töfin sögð nauðsynleg til að tryggja mætti „skipulega stöðvun“ framleiðslunnar.

Í yfirlýsingu Musk sagði hann fyrirtækið hafa fylgt öllum lagalegum fyrirmælum og öryggisviðmiðum og gert allar mögulegar heilbrigðisráðstafanir við starfsemi verksmiðjunnar. Farið hafi verið að tilmælum alríkisyfirvalda um að halda starfsemi áfram, en áframhaldandi starfsemi hafi reynst birgjum, starfsmönnum og fjölskyldum þeirra erfið.

Forsvarsmenn fyrirtækisins hafi verið í stöðugu sambandi við embættismenn sýslu, ríkis og alríkis dagana á undan, og þetta verið niðurstaðan. Lágmarksstarfsemi í verksmiðjunni myndi halda áfram, en framleiðslu yrði hætt um sinn. Þá yrði mestallri framleiðslu einnig hætt í verksmiðju félagsins í New York-ríki, en útgöngubann var lagt á þar á föstudag.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .