Android farsímastýrikerfið er orðið það vinsælasta í heimi meðal almennra neytenda, en fyrirtæki eru enn feimin við að taka upp Android síma fyrir starfsmenn af öryggisástæðum. Til að bregðast við þessu ætla helstu framleiðendur Android síma að setja öryggismál á oddinn.

Í frétt Bloomberg er haft eftir talsmanni Samsung að búið sé að gera samning við SAP, sem framleiðir viðskiptalausnir fyrir fyrirtæki, til að fylla í öryggisholur í Android símunum frá Samsung.