Finnsk-íslenska tölvuleikjafyrirtækið Mainframe lýkur 7.6 milljóna evra, eða sem samsvarar 1,2 milljarða króna hlutafjárútboði, með kjölfestufjárfestinum Andreessen Horowitz ásamt Riot Games.

Þetta er í fyrsta sinn sem Andreessen Horowitz (a16z) og Riot fjárfesta í nýsköpun á Norðurlöndum, en þeir slást í hóp fyrri fjárfesta Mainframe: Maki.vc, Play Ventures, Crowberry Capital og Sisu Game Ventures. Mainframe Industries, er norrænt leikjafyrirtæki sem var stofnað fyrir rétt rúmu ári, eða í apríl 2019 til að þróa tölvuleiki til spilunar í skýinu.

Fjármögnun Mainframe var leidd af Andreessen Horowitz (a16z), sem er einn virtasti vísisjóður (VC) heims að því er fyrirtækið segir í tilkynningu, ásamt þátttöku Riot Games, en Riot eru framleiðendur League of Legends, stærsta fjölnotendatölvuleiks í heimi. Fyrri fjárfestar Maki.vc, Play Ventures, Sisu Game Ventures, og Crowberry Capital tóku allir þátt í útboðinu.

Mainframe er finnskt-íslenskt leikjafyrirtæki, stofnað af fyrrum reynsluboltum frá CCP, Remedy og Next Games. Félagið er að þróa nýjan ónefndan fjölspilunarleik (MMO) sértaklega hannaðan til spilunar í skýinu, en leikurinn er þróaður á starfsstöðvum Mainframe í Helsinki og Reykjavík þar sem nú starfa 20 manns.

„Við trúum því að leikir hannaðir til spilunar í skýinu muni gjörbylta afþreyingariðnaðinum á komandi árum og muni leiða til bæði nýrra notendaupplifana og viðskiptatækifæra,“ sagði Andrew Chen, fjárfestingastjóri hjá a16z.

„Við deilum sýn Mainframe á framtíð sýndarheima og því er það okkur ljúft að styðja við bakið á þeim í metnaðarfullri vegferð þeirra að skapa næstu kynslóð af fjölnotendaleikjum í skýinu.“

Spilun í skýinu leyfir aðgang að leik frá tækjum af ýmsum stærðum og gerðum, ýmist snjallsímum, PC tölvum og leikjatölvum. Í tilfelli fjölnotendaleiks verða bæði leikjavél og netþjónn í skýinu. Þetta gerir leikendum kleift að nálgast og streyma leik með sem allra minnstri fyrirhöfn líkt og Netflix og Spotify hafa áður rutt veginn fyrir myndefni og tónlist.

„Við elskum að fjárfesta í teymum sem þróa leiki sem við getum ekki beðið eftir að spila sjálf. Mainframe færir fjölnotendaleik sinn beint til leikmanna hvar sem þeir eru og þetta er skapandi sýn sem við höfum ekki séð áður,“ sagði Brendan Mulligan, viðskiptaþróunarstjóri hjá Riot Games. „Það er ekki til reynslumeira og betra teymi í heiminum til að búa til slíkan leik.“

Efni leiksins enn ekki afhjúpað

Efni leiksins hefur ekki enn verið afhjúpað en nú einbeitir Mainframe sér að því að safni liði til að taka þátt í þróun leiksins, bæði á starfstöðvum þess í Helsinki og Reykjavík.

„Fyrir frumkvöðla skiptir öllu máli að vinna með fjárfestum sem geta lagt meir á vogarskálarnar en einungis fé sitt,“ sagði Þorsteinn Gunnarsson framkvæmdastjóri og meðstofnandi Mainframe. „Með djúpstæðri þekkingu á leikjageiranum og ótrúlegu tengslaneti sínu er vart hægt að ímynda sér betri bakhjarla en a16z og Riot í vegferð Mainframe að gera okkar sýndarheim að veruleika.“

„Mainframe teymið er safn af ofurstjörnum og metnaður þeirra endurspeglast bæði í listrænni og tæknilegri sýn. Eftir að hafa unnið með þeim frá upphafi, efast ég ekki um að þessir frumkvöðlar eigi eftir umbylta hvernig við njótum sýndarheima í framtíðinni,” sagði loks nýskipaður stjórnarformaður fyrirtækisins, Ilkka Kivimäki hjá Maki.vc