Um þessar mundir skilar hvert starf í íslenskum sjávarútvegi rúmlega tvisvar sinnum meiri verðmætum en á árinu 1997 mælt á föstu verði. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Íslandsbanka um sjávarútveginn .

Þar segir að framleiðni í sjávarútvegi hafi vaxið mikið á milli áranna 2005 og 2008 þegar framleiðsluvirði á hvert starf jókst um 15,8 milljónir króna eða tæp 60%. Jókst framleiðsluvirði greinarinnar um 17% á þessum tíma á meðan starfsfólki fækkaði um 26,5%. Frá árinu 2008 til ársins 2013 hefur framleiðsluvirði á hvert starf í greininni í heild aukist um 6,3% sem jafngildir 1,2% árlegri aukningu.

Að mati skýrsluhöfunda hefur framleiðni aukist með meiri sjálfvirkni sem fylgir tækniframþróun við veiðar og vinnslu sjávarafurða. Aukin hagkvæmni í rekstri sjávarútvegsfélaga ásamt þeirri verðmætasköpun sem hlotist hefur við fullnýtingu fiskaflans hefur einnig stuðlað að aukinni framleiðni í greininni.

Framleiðsluvirði á starfsmann í sjávarútvegi í milljónum króna á verðlagi ársins 2013 (Heimild: Íslandsbanki).
Framleiðsluvirði á starfsmann í sjávarútvegi í milljónum króna á verðlagi ársins 2013 (Heimild: Íslandsbanki).