Framleiðsluaukning í Kína hefur ekki verið lægri síðan 2008, en síðustu tvo mánuði mældist hún 5,4%. Fréttir af lækkandi framleiðslu hafa ekki vakið mikla lukku hjá stjórnmálafólki eða greiningaraðilum, en meðal annars hefur George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, sagt að efnahagur Kína sé „varasamur áhættukokteill." BBC segir frá þessu.

Kínverska ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir því að breyta áherslum efnahagskerfisins þar í landi úr því að byggja á útflutningi og fjárfestingum yfir í að halda sér við og vaxa og dafna út frá eigin innlendri neyslu. Útflutningur hefur þá fallið um 25,4% milli ára, og smásala hefur aukist um 10,2% í febrúarmánuði - þegar spár gerðu ráð fyrir 10,9% aukningu.

Greiningaraðilar eru sumir hverjir áhyggjufullir, en í viðtali við Bloomberg segir Zhou Hao hagfræðingur Commerzbank að útlitið sé svart í Kína, og að nýútgefnar hagtölur séu ekki miklar gleðifréttir. Eins og fyrr segir hefur George Osborne einnig lýst yfir áhyggjum sínum af efnahagskerfum heimsins, en hann skrifaði í The Sun að hann væri ekki vongóður um neina viðsnúninga.

Þrátt fyrir allt bölsýnistal er Zhou Xiaochuan, seðlabankastjóri Kína, bjartsýnn um að þjóðin muni ná hagvaxtarmarkmiðum sínum án mikilla inngripa, hvort sem er gegnum óhóflega magnbundna íhlutun eða aðra peningastefnu. Markmið bankans er að ná 6,5% hagvaxtarmeðaltali á næstu fimm árum.