Framleiðni vinnuafls á Íslandi jókst um 12,9% á milli áranna 2008-2016 samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands. Á milli áranna 2015 og 2016 jókst framleiðni um tæp 3,8%.

Á tímabilinu öllu jókst framleiðni mest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð eða um 57%, næst mest í upplýsingum og fjarskiptum eða um 56,5% og þar næst í rekstri gisti- og veitingastaða eða um 43,6%.

Á móti kemur að framleiðni dróst saman um 44,6% í fjármála- og vátryggingarstarfsemi og 3,7% í landbúnaði, skógrækt og fiskveiðum. Þá jókst framleiðni í opinberri stjórnsýslu, fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónustu aðeins um 2,9% á tímabilinu. Þessir þrír flokkar draga því meðaltalið niður.