Framleiðni vinnuafls á Íslandi dróst saman um 1,2% á árunum 2009-2014 samkvæmt tölum OECD. Á sama tíma jókst framleiðnin í öllum öðrum löndum V-Evrópu, N-Evrópu, Kanada og Bandaríkjunum. Mest jókst framleiðnin á Írlandi, eða um 12,1 prósent.

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, fjallaði um framleiðni á Íslandi á stefnumóti stjórnenda sem haldið var í síðustu viku. Hann segir að framleiðnistöðnun sé ekki aðeins vandamál á Íslandi heldur sé þetta vandamál á meðal flestra vestrænna ríkja. Frosti segir að undanfarin ár hafi hagvöxtur á Íslandi verið knúinn áfram með auknu vinnuafli frekar en aukinni framleiðni.

„Við höfum verið að fjölga störfum og auka aftur við vinnutíma, þ.e. fækka hlutastörfum og auka yfirvinnu, en ekki knúið hagvöxtinn áfram með framleiðni. En það sem ég myndi segja að standi upp úr í tengslum við helstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar er einföldun á skattkerfinu. Bæði hafa verið tekin skref í tengslum við tollamál og vörugjöld, auk þess sem tekjuskattskerfið hefur verið einfaldað. Þetta eru dæmi um skref sem eru til þess fallin að skapa umgjörð sem eflir framleiðni fram á við.“ Spurður hvers vegna Íslendingar eru eftirbátar nágrannalandanna þegar kemur að framleiðni nefnir Frosti að uppgangur ferðaþjónustunnar búi til bæði störf og gjaldeyri.

„En á þeim stað sem við erum komin núna í hagkerfinu þar sem atvinnuleysi er takmarkað eða ekkert og jafnvægið í viðskiptajöfnuði er til staðar þá má segja að í þjóðhagslega samhenginu valdi áframhaldandi vöxtur í ferðaþjónustunni, af því gefnu að ferðaþjónustan verði óbreytt í samhengi við virðisauka á hvern starfsmann innan greinarinnar, því að framleiðni vinnuafls að meðaltali muni rýrna vegna þess að við erum að stækka hlutfall atvinnugreina sem eru ekki með jafn háan virðisauka að meðaltali.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .