Samkvæmt nýrri skýrslu frá OECD þarf að efla nýsköpunarumhverfið og auðvelda útbreiðslu þekkingar um hagkerfið til að auka framleiðni hér á landi. Björn Brynjúlfur Björnsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs segir í samtali við Morgunblaðið að nýsköpunarumhverfið hér á landi hafi batnað mikið á undanförnum árum. Vandamálið liggi frekar í því að hjálpa þurfi fyrirtækjum að keppa á alþjóðlegum mörkuðum.

Morgunblaðið greinir frá því að framleiðni á Íslandi er sérstaklega lítil og er hún minni en meðaltal OECD-landanna. Á Íslandi virðist nýsköpunarumhverfi ekki standa framleiðni fyrir þrifum. Lagalegt umhverfi frumkvöðlafyrirtækja hér á landi samanborið við nágrannalöndin er gott og nýsköpun gengur vel í fjárfestingaumhverfinu. Það eru meðal annars að spretta ýmsir sjóðir.

Nýsköpunarumhverfið hér virðist það gott að auka þarf framleiðni með öðrum hætti. Björn Brynjúlfur segir í samtali við Morgunblaðið að fyrst og fremst þurfi að bæta samkeppnisumhverfið til að auka framleiðni. Hann segir að opna þurfi hagkerfið í meira mæli fyrir alþjóðlegri samkeppni, til dæmis með afnámi tolla og fækka þarf hindrunum í alþjóðlegum viðskiptum. Björn Brynjúlfur segir afnám hafta leika sérstaklega stórt hlutverk í þeim efnum.