*

mánudagur, 27. september 2021
Erlent 4. mars 2018 13:09

Framleiðnivöxtur í forgrunni

38% fyrirtækja segjast ekki fjárfesta til fulls í tækninýjungum sökum áhættufælni.

Hörður Guðmundsson
Í skýrslu Mckinsey eru sjö lönd höfð til hliðsjónar en það eru Bandaríkin, Frakkland, Ítalía, Spánn, Svíþjóð, Bretland og Þýskaland. Myndin er tekin í verksmiðju Porsche í Stuttgart í Þýskalandi
epa

Síðustu níu ár hafa hagkerfi heimsins verið að ná sér á strik eftir fjármálakreppuna miklu. En þrátt fyrir að flestar hagtölur og spár séu orðnar ásættanlegar, hefur framleiðnivöxtur vinnuafls verið nálægt sögulegu lágmarki í ýmsum þróuðum hagkerfum. Óhætt er að segja að þessi staðreynd valdi hagfræðingum hugarangri, enda er framleiðnivöxtur undirstaða bættra lífskjara. Honum fylgja hærri laun og aukin kaupmáttur, sem hjálpar svo sannarlega til við að auka eftirspurn eftir vörum og þjónustu.

Í nýrri skýrslu McKinsey & Company sem ber titilinn – Solving the productivity puzzle: The role of demand and the promise of digitalization – er varpað ljósi á framleiðnivöxt, orsök og afleiðingar. Alls voru sjö lönd höfð til hliðsjónar í skýrslunni þ.e. Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Spánn, Svíþjóð, Bretland og Bandaríkin. Farið er yfir víðan völl og reynt er að útskýra hvað hefur verið að draga úr vextinum síðustu áratugina. Auk þess er reynt að varpa ljósi á þær aðgerðir sem verður að grípa til, til þess að ná framleiðnivexti upp fyrir 2 prósent á ári næstu tíu árin.

Bylgjurnar þrjár

Sérfræðingar McKinsey & Company fjalla um þrjár bylgjur í skýrslunni. Allar eiga þær að varpa ljósi á söguna og framtíðina. Fyrstu tvær bylgjurnar drógu framleiðnivöxt niður um 1,9%. Aftur á móti er vonast til þess að þriðja bylgjan geti bætt stöðuna í náinni framtíð.

Fyrsta bylgjan felst í hægari framleiðnivexti og hófst um 2005, eftir áratugar langa byltingu á sviði tölvutækni sem hófst um miðjan tíunda áratug síðustu aldar. Um þetta leyti var einnig búið að ná miklum framförum með bættum verkferlum og aukinni úthýsingu. Til að mynda var framleiðsla á ýmsum varningi búin að færast til þróunarlanda.

Seinni bylgjan kom svo í kjölfar fjármálahrunsins, en þá dró lítil heildareftirspurn og mikil óvissa, framleiðnivöxt niður um tæpa prósentu. Fjármálageirinn fór á hliðina og fyrirtæki fóru að draga úr og fresta fjárfestingum á meðan mesta óvissan ríkti.

Þriðja bylgjan mun óskandi hrinda framleiðnivexti upp á við. Mikið hefur verið fjallað um stafræna framtíð, en miklar væntingar eru gerðar til nýrra hugbúnaðarlausna og viðskiptahátta. Það getur þó tekið talsverðan tíma að sjá ábata, enda standa fyrirtæki oft frammi fyrir hindrunum og skiptakostnaði meðan á breytingunum stendur.

Vinnustundir, tækni og fjármunir

Þó að löndin sjö sem notuð voru í þessu úrtaki segi ekki öll nákvæmlega sömu sögu, má þó greina ákveðna þætti sem veita innsýn inn í þróun mála. Athyglisvert er að sjá að á árunum eftir hrun, hefur vinnustundum til að mynda fjölgað, en virðisaukningin hefur þó ekki látið eins mikið á sér bera. Þar af leiðandi hefur efnahagslega endurreisnin einkennst af aukningu í störfum, en hægagangi í framleiðnivexti.

Auk þess litu höfundar skýrslunnar á nánast annan tug geira. Þær rannsóknir leiddu í ljós að mesta framleiðniaukningin virðist eiga sér stað á afmörkuðum sviðum og hefur því lítil áhrif á heildar framleiðniaukningu. Allar þjóðir úrtaksins virtust eiga þetta sameiginlegt og því má í raun fullyrða að stafrænar framfarir séu að dreifast hægt og ójafnt meðal fyrirtækja.

Hagfræðingar McKinsey litu einnig á fjármuni á hvern starfsmann og sáu þá að aukningin í þeim efnum hefur verið ein sú minnsta frá seinna stríði. Til þess að knýja fram framleiðnivöxt þarf sífellt að uppfæra tæki og tól, hvort sem er í framleiðslueða þjónustugeirum. Fyrirtæki virðast hafa haldið aftur að sér í fjárfestingum og því má líklegast auka framleiðni með því að uppfæra kapítalið.

Tími og peningar

Alþjóðleg könnun sem fyrirtækið gerði, leiddi í ljós að 47% fyrirtækja sem hafa verið að bæta í fjárfestingabaukinn segjast aðeins vera að gera það sökum aukinnar eftirspurnar. Um 38% fyrirtækja segjast svo ekki fjárfesta til fulls í tækninýjungum sökum áhættufælni. Fyrirtæki virðast því almennt vera í viðbragðsstöðu, frekar en að búa sig undir framtíðina.

Fjölmargir þættir útskýra svo hvers vegna tæknibylgjan hefur ekki fullkomlega dunið yfir. Til að mynda tekur það oft tíma að gera stafrænar lausnir notendavænar. Einnig krefjast innleiðingar nýjunga oft mikils tíma og athygli af hálfu stjórnenda. Þeir eiga það því til að fresta ákvörðunum ef annað er ofar í forgangsröðuninni.

Skiptikostnaðurinn hefur verið mikill og einnig hefur borið á tekjutapi meðal fyrirtækja sem hafa innleitt lausnir sem leysa gamla viðskiptahætti af hólmi. Þetta þema hefur almennt átt sér stað í löndunum sem voru könnuð og helstu geirum þessara þjóða.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: framleiðni McKinsey