PCC BakkiSilicon hf. reisir nú kísilver á iðnaðarsvæðinu að Bakka við Húsavík til framleiðslu á kísilmálmi. Núverandi áætlanir gera ráð fyrir því að verksmiðjan hefji framleiðslu undir lok þessa árs, en framkvæmdir hófust í júní árið 2015.

PCC BakkiSilicon er íslenskt dótturfélag þýska fyrirtækisins PCC SE (PCC Group). PCC SE er eignarhaldsfélag alþjóðlegra einkafyrirtækja sem starfa í orku-, efna- og flutningaiðnaði. Hjá dótturfélögum fyrirtækjasamsteypunnar starfa um 3.000 manns á 39 byggingarsvæðum í 17 löndum. Alverktaki byggingarframkvæmda PCC á Bakka er SMS group GmbH, sem er með höfuðstöðvar í Düsseldorf í Þýskalandi.

„Framkvæmdirnar eru meira eða minna á áætlun,“ segir Hafsteinn Viktorsson, forstjóri PCC BakkaSilicon. „Eins og staðan er núna mun fyrsti ljósbogaofninn fara í gang um miðjan desember. Ef allt gengur að óskum munum við kveikja á ofni númer tvö um fjórum til sex vikum seinna.“ PCC BakkiSilicon var stofnað árið 2012 til að halda utan um verkefnið á Bakka, en undirbúningur verkefnisins hefur staðið mun lengur á vegum PCC SE, sem er stærsti eigandi PCC BakkiSilicon. Hafsteinn segir langþráð takmark nú í sjónmáli, enda mun verksmiðjan stækka virðiskeðju PCC SE sem hefur fram að þessu að mestu framleitt efni til iðnaðarnota.

Helstu kaupendur verða þýsk fyrirtæki

Verksmiðjan mun framleiða 32 þúsund tonn af kísli á ári. „Aðalhráefnið til framleiðslu kísils er kvartsít en það kemur frá námu í eigu PCC SE í Póllandi. Önnur hráefni eru m.a. kolefni, trjákurl og kalksteinn. Orkuþörf verksmiðjunnar nemur um 50 megavöttum af raforku og kemur að öllu leyti frá endurnýjanlegum auðlindum, aðallega jarðvarmavirkjunum, en orkusamningur við Landsvirkjun var undirritaður í marslok 2015.

Afurðir verksmiðjunnar – kísilmálmur sem og aukaafurðir, kísilryk og kísilgjall – verða fluttar á alþjóðlega markaði. Kísilmálmurinn sem verður framleiddur hjá okkur er að miklu leyti þegar seldur með langtíma sölusamningum en helstu kaupendur kísilmálmsins verða þýsk framleiðslufyrirtæki. Afhending hráefna og afurða fer fram með skipum til og frá Húsavíkurhöfn og um ný göng og iðnaðarveg sem liggur að kísilverinu,“ segir Hafsteinn. Þess má geta að verksmiðjan mun standast ströngustu kröfur í umhverfismálum.

Í upphafi var gert ráð fyrir að verksmiðjan myndi stækka þegar fram liðu stundir og að framleiðslugeta hennar yrði 66 þúsund tonn. Hafsteinn segir þó engar ákvarðanir hafa verið teknar um stækkun að svo stöddu. „Fyrst er að koma þessum tveimur ofnum í gang og svo þarf heimsmarkaðsverð á Silicon að taka við sér til að stækkun verði raunhæf,“ segir Hafsteinn.

Auðgar atvinnulífið í Norðurþingi

Engum blöðum er um það að fletta, að verksmiðjan á Bakka auðgar atvinnulífið í kringum Húsavík og á norðausturhorni landsins.

Nánar er fjallað um málið í Orka & iðnaður , fylgiriti Viðskiptablaðsins . Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .