Útflutningsverðmæti eldisafurða nam tæplega 2,3 milljörðum króna í nóvember samkvæmt tölum sem Hagstofa Íslands birti um vöruskipti í morgun, en það er samdráttur frá 2,6 milljörðum króna í október og 3,9 milljörðum króna í september. Hins vegar jókst magnið um 4% á milli ára á fyrstu 11 mánuðum ársins og hefur framleiðslan aldrei verið meiri.

Verðmæti útflutningsins voru umfram væntingar að mati Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi en fjallað var um væntingarnar á Radarnum , svokölluðu mælaborði sjávarútvegsins, í byrjun desember.

Engu að síður er um talsverðan samdrátt að ræða miðað við nóvember 2019, eða um rúm 22% í krónum talið en um 33% á föstu gengi. Hér ber þó að halda til haga að nóvember 2019 var þriðji stærsti mánuðurinn frá upphafi í útflutningi á eldisafurðum.

Samtökin benda á að eðlilega geta miklar sveiflur verið á milli mánaða og segja þeir að samdrátturinn í nóvember sé síður en svo vísbending um að bakslag hafi orðið í þeirri jákvæðu þróun sem verið hefur á framleiðslu og útflutningi á eldisafurðum undanfarin misseri.

Útflutningsverðmæti eldisafurða 2020
Útflutningsverðmæti eldisafurða 2020
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Verðmætið komið yfir 25 milljarða

Útflutningsverðmæti eldisafurða er komið í rúma 25,3 milljarða króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2020. Það er um 11% aukning í krónum talið miðað við sama tímabil árið 2019. Gengi krónunnar var að jafnaði 10% veikara á fyrstu 11 mánuðum ársins í fyrra en á sama tímabili árið 2019 og stendur útflutningsverðmæti eldisafurða þar með nánast í stað á milli ára á föstu gengi.

Þrátt fyrir aukninguna á eldisafurðum í heild standa útflutningsverðmæti eldislax svo til í stað á milli ára. Inn í þeim tölum er útflutningsverðmæti flokks sem heitir „lifandi eldislax“, þar með talin seiði. Ætla má að það séu að stærstum hluta frjóvguð hrogn sem eru verðmæt hátækniframleiðsla. Útflutningsverðmæti þeirra nam 1,8 milljörðum króna á tímabilinu og dróst saman um 30% á föstu gengi frá sama tímabili árið 2019.

Útflutningsverðmæti hefðbundinnar framleiðslu á eldislaxi nam því 17,3 milljörðum króna á fyrstu 11 mánuðum ársins í fyrra, sem er um 5% aukning frá sama tímabili árið 2019.

Útflutningsverðmæti silungs, sem er að langstærstum hluta bleikja, nam rúmlega 5,2 milljörðum króna og jókst um rúm 4% á milli ára á föstu gengi.  Útflutningsverðmæti annarra eldisafurða nam 1,0 milljarði króna og dróst saman um 22% á milli ára.

Það að útflutningsverðmæti eldisafurða sé nánast óbreytt á fyrstu 11 mánuðum ársins 2020 segja samtökin að verði að teljast mjög gott miðað við það árferði sem ríkt hefur í heimsbúskapnum vegna COVID-19.

Það má einkum rekja til aukinnar framleiðslu á eldisafurðum en hún jókst um 4% að magni til á milli ára á greindu tímabili og hefur hún eins og áður segir aldrei verið meiri. Á móti vegur tæplega 4% lækkun á afurðaverði í erlendri mynt, sem er bein afleiðing af COVID-19.

Útflutningsverðmæti eldisafurða á föstu gengi
Útflutningsverðmæti eldisafurða á föstu gengi
© Aðsend mynd (AÐSEND)