Á síðast ári jókst framleiðsla á laxi meira en tvöfalt á við það sem framleitt var síðustu tvö ár þar á undan. Þrefaldaðist slátrun á regnbogasilungi, en í heildina jókst framleiðsla fiskeldis um 82% á milli ára.

Náði framleiðslumagni á síðasta ári að verða meira en framleitt var í hámarki síðustu fiskeldisbylgju árið 2006 að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Stórt stökk árin 2018 og 2019

Segir þar að búist sé við áframhaldandi aukningu og stóru stökki í framleiðslunni á árunum 2018 og 2019.

Er áætlað að framleiðsla á laxi aukist á árinu og verði um 11 þúsund tonn í ár og fari upp í 20 þúsund tonn á næsta ári, að því er Landssamband fiskeldisstöðva áætlar.

Munu nokkur ný fyrirtæki koma inn í framleiðslu á laxi, en þau hafa þegar sett seiði í sjókvíar. Verð á laxi er í sögulegu hámarki um þessar mundir og segir Höskuldur Steinarsson framkvæmdastjóri Landssambandsins að mikil eftirspurn sé eftir afurðunum.

Áætlar landssambandið að starfsmenn í fiskeldi séu nú um 560 manns.

Arnarlax stærsti framleiðandinn

Arnarlax framleiddi meginhluta laxins sem slátrað var á liðnu ári, en hluti af aukningunni kemur til vegna þess að áætluð slátrun ársins 2015 var frestað fram á síðasta ár.

Tvö önnur fyrirtæki framleiða lax í landstöðvum og í minna mæli heldur en í sjókvíaeldi Arnarlax.

Regnbogasilungur dregst saman

Sjókvíaeldið hefur færst nánast alfarið í framleiðslu á laxi, og stefnir í litla framleiðslu á regnbogasilungi í framhaldinu þó hún hafi þrefaldast á síðasta ári. Á árinu var jafnframt lítils háttar framleiðsluaukning á bleikju, en hún er framleidd úr landstöðvum.

Einnig virðist þorskeldi vera að dragast saman, en þó nú séu þrjú fyrirtæki sem stundi það stefnir í að einungis eitt fyrirtæki muni ala undirmálsþorsk á næsta ári.