Frjálsar strandveiðar hafa orðið til þess að skapa frekari eftirspurn eftir hafnaraðstöðu víða um land. Króli hefur ekki farið varhluta af þessari eftirspurn því að fyrir liggja pantanir á 11 flotbryggjum sem settar verða upp víða um land. „Það er brýn þörf á bryggjum vegna fjölgunar í strandveiðiflotanum,“ segir Kristján Óli Hjaltason, framkvæmdastjóri Króla, sem sérhæfir sig í flotbryggjum. Króli og SF Marina í Svíþjóð hafa samið við Loftorku um framleiðsla á flotbryggjum þannig að framleiðsla færist frá Svíþjóð til Borgarness. Kristján segir að áhugi hafi aukist hjá hafnaryfirvöldum við að framleiðslan hafi færst hingað til lands. Framleiðsla hér á landi eykur hagkvæmni bryggjanna þrátt fyrir að framleiðslan kosti svipað hér á landi og í Svíþjóð. Sparast flutningur því flotbryggjurnar eru dýrar í flutningi þar sem þær eru mjög rúmfrekar.

Skapar atvinnu

Fimm til fimmtán starfsmenn koma til með að vinna við framleiðsluna á flotbryggjunum hjá Loftorku og Kristján segir tvo sinna sölustörfum hjá Króla og að auki starfi um fjórir verktakar við að koma bryggjunum fyrir. Króli selur og þjónustar íslensku flotbryggjurnar með sama hætti og þær sænsku. Framleiðslan hjá Loftorku bætist því við sem nýr valkostur fyrir viðskiptavini Króla.