Framleiðni efnahagslífs vestanhafs óx um 2,9% á ársgrundvelli á öðrum árshelmingi sem er minnsti vöxtur í tæp 2 ár, en hann mældist 3,7% á þeim fyrsta. Vöxturinn var samt sem áður yfir væntingum en hagfræðingar sem Bloomberg leituðu til spáðu að meðaltali 2% vexti framleiðni.

Í Hálffimm fréttum KB banka er bent á að 12 mánaða verðbólga mældist 3,3% í lok júní samanborið við 1,9% verðbólgu árið 2003. Samkvæmt könnun Bloomberg fréttastofunnar er spáð 2,7% verðbólgu á árinu, en verðbólgumarkmið bankans er 2%.

"Störfum fjölgaði langtum minna en væntingar stóðu til í júlí, eða um 32.000 sem er minnsta fjölgun á árinu. Þá fjölgaði vinnustundum um 0,8% á öðrum ársfjórðungi samanborið við 2% fjölgun á þeim fyrsta. Minni aukning starfa minnkar þrýsting á hækkun starfsmannakostnaðar. Það má hins vegar leiða af því lyktum að störfum taki að fjölga hraðar þar sem nýting vinnuafls er mjög há," segir í Hálffimm fréttum.

Aukning starfsmannakostnaðar

Þar er ennfremur bent á að minni framleiðnivöxtur gefur til kynna að fyrirtæki hafi náð hámarksnýtingu vinnuafls. Starfsmannakostnaðar komi því til með að aukast, en hann jókst um 1,9% á ársgrundvelli á öðrum ársfjórðungi sem er mesta aukning hans síðan á öðrum ársfjórðungi 2002, en á þeim fyrsta jókst hann einungis um 0,3%. "Ekki er ólíklegt að fyrirtæki reyni að flytja hærri starfsmannakostnað yfir til neytenda með því að hækka verð. Það er því búist við að Seðlabankinn muni hækka stýrivexti sína um 25 punkta, eða í 1,5%, á vaxtafundi sínum sem líkur síðdegis í dag. Ef Seðlabankinn hækkar vextina í dag er þetta önnur hækkun þeirra á árinu, en þeir hækkuðu þá um 25 punkta í júní sem var fyrsta hækkun þeirra í fjögur ár," segir í Hálffimm fréttum.

Þar er einnig bent á að fyrrum seðlabankastjóri Bandaríkjanna og aðrir hagfræðingar segja að vaxtaákvörðunarnefnd Seðlabankans segja að hraði frekari stýrivaxtahækkana muni fara eftir vexti hagkerfisins og fjölgun starfa. Margir hagfræðingar sem spáðu því fyrir viku að Seðlabankinn hækkaði stýrivexti sína um 0,25% á hverjum vaxtaákvörðunarfundi sem eftir er árs, spá því nú að Seðlabankinn muni ekki hækka vexti fyrr en eftir forsetakosningarnar sem fara fram þann 2. nóvember. Hækkandi olíuverð og minni fjölgun starfa hefur verið helsta ástæðan fyrir skoðanabreytingu þeirra, en tunnan af hráolíu fór í fyrsta skipti yfir $45 í New York í dag.