Framleiðni í Bandaríkjunum minnkaði á síðasta ársfjórðungi og er þetta fyrsta ársfjórðungslækkun þar síðan í byrjun 2001, segir greiningardeild Landsbankans.

Lækkunin nam 0,5% en framleiðni jókst þó um 2,9% yfir allt árið 2005. Eru bæði framleiðnilækkunin og launakostnaðarhækkunin nokkurn veginn í takt við spár sérfræðinga.

Reiknað er með að bandaríska hagkerfið sýni batamerki fljótlega og að væntur aukinn hagvöxtur komi til með að leiða af sér framleiðnihækkun.

Einnig voru birtar tölur um launakostnað sem hækkaði um 3,3% á síðasta ársfjórðungi og er það mesta fjórðungshækkun í eitt ár.

Aukin eftirspurn í hagkerfinu er talin hafa þrýst launakostnaði upp og er gert ráð fyrir að launakostnaður komi til með að hækka áfram að einhverju marki á næstunni.