Móðurfélag Íslenska kalkþörungafélagins ehf. hyggst færa hluta af framleiðslu sinni til Íslands og auka þannig starfsemi verksmiðjunnar á Bíldudal en hún hóf framleiðslu sína á síðasta ári. Að sögn Guðmundar Magnússonar, framkvæmdastjóra félagsins, er það vilji eigenda að færa hluta af þeirri framleiðslu sem er í verksmiðju á Írlandi hingað til lands.

Vegna stækkunar verksmiðjunnar er nauðsynlegt að fjárfesta fyrir tugi milljóna króna, að mestu í tækjabúnaði. Um leið er verið að semja við Orkubú Vestfjarða en félagið hyggst skipta út própan gasi en það var valið sem orkugjafi í byrjun. Að sögn Guðmundar er sú aðferð að nota gas við þurrkunina þekkt frá Írlandi og er fjárfestingarkostnaðurinn vegna þess miklu lægri.

Framleiðslan aukin upp í 2000 tonn

,,En nú þegar við teljum að framleiðslan sé komin á beinu brautina og á kveðið hefur verið að auka framleiðsluna hér á Bíldudal er það fjárhagslega hagkvæmt að ráðast í þá fjárfestingu að breyta þurrkuninni yfir í rafþurrkun,“ sagði Guðmundur. Vegna þess þarf félagið að taka inn talsvert stærri heimtaug.

Íslenska Kalkþörungafélagið hóf starfsemi í maí á síðasta ári. Verksmiðjan er um 3000 fermetrar að stærð og er áætlað að framleiðslan verði allt að 55 þúsund tonn þegar hún verður komin í full afköst eftir nokkur ár. Í dag er verksmiðjan að framleiða ríflega eitt þúsund tonn á mánuði en með breytingunum í haust er gert ráð fyrir að framleiðslan fari upp í um tvö þúsund tonn.

Hefja áburðarframleiðslu

Sömuleiðis er vert að geta þess að ætlunin er að hefja framleiðslu kalkáburðar hjá verksmiðjunni síðar árinu. Þá eru kalkþörungarnir teknir og malaðir og síðan kornaðir þannig að þeir verða svipaðir og hefðbundinn áburður. Sú framleiðsla verður að mestu til útflutnings og er einkum verið að horfa til markaða í Evrópu og Bandaríkjunum. Að sögn Guðmundar hefur gengið vel að selja framleiðslu fyrirtækisins til þessa en sölunni er stýrt frá Írlandi.

Til að byrja með var áætlað að framleiða um 10 til 15 þúsund tonn af kalkþörungamjöli á ári og er verksmiðjan að komast upp í þau afköst.  Í upphafi voru fimm starfsmenn ráðnir til fyrirtækisins en nú eru þeir 10. Að sögn Guðmundar er líklegt að þeim fjölgi eitthvað með haustinu. Kalkþörungaverksmiðjan er í eigu írska kalkþörungafyrirtækisins Celtic Sea Minerals Ltd.