Senn líður að því að fyrirtækið Murr hefji framleiðslu á kattamat í verksmiðju sinni í Súðavík að því er kemur fram í frétt á heimasíðu fyrirtækisins.

Þar kemur fram að undanfarið hefur verið unnið af fullum krafti að undirbúningi, uppsetningu tækja og þess háttar, og búið er að tryggja hráefni til framleiðslunnar. Meginhráefnið eru sláturafurðir og kemur það frá Sláturfélagi Austur Húnvetninga á Blönduósi og frá sláturhúsum Norðlenska á Akureyri. Fjórir starfsmenn munu starfa hjá fyrirtækinu þegar framleiðsla hefst.