Framleiðsluverð á evrusvæðinu hækkaði um 1,1% milli mánaða í júlí síðastliðnum.

Í Vegvísi Landsbankans segir að hækkunin hafi verið aðeins undir væntingum en meðalspá sem Bloomberg tók saman hafi hljóðað uppá 1,2% hækkun. Framleiðsluverð á evrusvæðinu hafi nú hækkað um 9% frá því á sama tíma í fyrra. Það mun vera að mesta hækkun á ársgrundvelli í 18 ár.

„Þessar tölur sýna töluverðan verðbólguþrýsting á evrusvæðinu en hafa ber í huga að um tölur frá júlí er að ræða,“ segir í Vegvísinum. Í júlí hafi olíuverð náð hæstu hæðum í kringum 147 Bandaríkjadali á tunnu, síðan þá hafi olíuverð lækkað mikið og sé komið niður fyrir 110 Bandaríkjadali á tunnu í dag.

„Lækkun olíuverðs mun líklega skila sér í minni verðbólguþrýstingi en samkvæmt bráðabirgðatölum Eurostat lækkaði verðbólga á evrusvæðinu úr 4% í 3,8% á ársgrundvelli í ágúst.“

Seðlabanki Evrópu mun tilkynna næstu stýrivaxtaákvörðun sína næstkomandi fimmtudag. Búast má við að stýrivextir haldist óbreyttir en meðalspá Bloomber gerir ráð fyrir að svo verði.