Héraðsdómur Reykjavíkur samþykkti í dag beiðni Stoða (áður FL Group) um framlengingu heimildar til greiðslustöðvunar til 20. janúar 2009.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stoðum.

Þar kemur fram að stærstu lánardrottnar félagsins, sem fara með yfir 50% skulda félagsins, höfðu áður lýst yfir stuðningi við framlengingu greiðslustöðvunarinnar.

„Stjórn og stjórnendur Stoða fá nú svigrúm til að leita hagkvæmustu lausna með hagsmuni allra lánardrottna að leiðarljósi,“ segir í tilkynningunni.

„Ljóst má vera að umrót síðustu vikna og slæm staða íslensks efnahagslífs hefur haft neikvæð áhrif á verðmæti og starfsemi félaga í eigu Stoða. Það er því forgangsverkefni stjórnenda Stoða að skapa ró og festu í rekstri félaganna og varðveita verðmæti þeirra.“

Þá kemur fram að Stoðir eiga eignarhluti í félögum á borð við Tryggingamiðstöðina, Landic Property, Refresco, Iceland Foods, Alfesca, Bayrock Group, Royal Unibrew, Nordicom og Þyrpingu.