Fulltrúar AU 3 ehf. hafa ákveðið að lengja tilboðsfrest skilyrts kauptilboðs á 27 prósenta hlut í Heimavöllum. Upphaflega átti tilboðsfrestur að renna úr þann 6. maí en mun nú renna út 24. maí kl. 16. Verðmæti tilboðsins er um fjórir milljarðar króna.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar ítrekar tilboðsgjafi rétt til að falla frá þeim skilyrðum sem fram í því koma. Þar með talin er skilyrðið um 27 prósent hámarkssamþykki og skilyrðið um að hlutabréfin verði tekin úr viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar.

Þann 17. apríl síðastliðinn hafnaði Kauphöllin beiðni Heimavalla um að bréf félagsins yrðu tekin úr viðskiptum á aðalmarkaði. Tillaga þess efnis hafði verið samþykkt af rúmlega 80 prósent hluthafa á aðalfundi. Afstaða Kauphallarinnar byggði hins vegar á því að verulega myndi draga úr seljanleika bréfanna, aðgerðin hefði neikvæð áhrif á trúverðugleika markaðarins og að beiðnin hafi ekki notið nægjanlegs stuðnings meðal hluthafa.

„Ástæða framlengingar [tilboðsfrestsins] er sú að tilboðsgjafi hefur til skoðunar viðbrögð við þeirri stöðu sem ákvörðun NASDAQ Iceland leiðir til. Ákvörðunin kom tilboðsgjafa á óvart í ljósi þess að yfirgnæfandi meirihluti hluthafa í Heimavöllum samþykkti að óskað yrði eftir afskráningu hlutabréfa félagsins,“ segir í tilkynningu til Kauphallarinnar nú.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, sagði nýverið við Viðskiptablaðið að einhugur þyrfti að vera meðal hluthafa um slíka ákvörðun. „Að okkar mati var ekki nægilegt fylgi með afskráningu en þar erum við að leggja sams konar mat á hlutina og kauphallir í nágrannaríkjum okkar,“ segir Páll.