Framlög ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hafa meira en tvöfaldast á árunum 1998 til 2005. Á árinu 1998 nam framlag ríkisins 3.280 m.kr. en í fjárlögum ársins 2005 er það 7.145 m.kr. sem er um 118% hækkun. Heildarframlög ríkisins í sjóðinn á þessu tímabili nema samtals um 45 milljörðum kr. Lögbundin framlög ríkisins til Jöfnunarsjóðs eru ákvörðuð með tvennum hætti. Annars vegar er 0,264% af álögðum útsvarsstofni og hins vegar 2,12% af innheimtum skatttekjum ríkisins.

Hlutfalli af innheimtum skatttekjum var lítillega breytt á árinu 2003 m.a. í tenglum við breytingar á verkaskiptum ríkis og sveitarfélaga. Frá árinu 2001 hefur verði greitt árlega framlag í sjóðinn til að jafna tekjutap einstakra sveitarfélaga vegna lækkunar fasteignaskattstekna í kjölfar breytinga á álagningarstofni mannvirkja það ár. Þetta framlag var hækkað úr 1.100 m.kr. í 1.360 m.kr. árið 2002. Frá og með árinu 2003 var framlagið fært inn í hlutfall af innheimtum skatttekjum ríkisins. Samtals má áætla að framlög vegna lækkunar fasteignagjaldstekna nemi rúmum 7,2 milljörðum króna í árslok 2005.

Auk þessa hafa komið framlög vegna sérstakra verkefna svo sem til átaks vegna einsetningar grunnskóla og til jöfnunar húsaleigubóta sem hvort tveggja eru verkefni sveitarfélaga. Greitt var til einsetningar grunnskóla til ársloka 2001 og námu samanlög framlög til þess verkefnis um 1,1 milljarði kr. frá árinu 1998 og samtals var varið rúmum 1,6 milljörðum kr. til jöfnunar
húsaleigubóta til ársloka 2002 en frá árinu 2003 hafa framlög til húsaleigubóta ekki verið reiknuð sérstaklega og eru nú hluti af 2,12% almennu framlagi.

Byggt á vefriti fjármálaráðuneytisins.