Keilir ehf. þarf að treysta rekstrargrundvöll sinn enn betur svo hann standi undir fjárskuldbindingum komandi ára. Þetta segir Ríkisendurskoðun í nýrri skýrslu um nýtingu ríkisframlaga til skólahalds félagsins. Hluti af athugasemdunum hafði áður verið birtur árið 2010.

Ríkisendurskoðun telur að skólinn þurfi líka að tryggja að ríkisframlög renni til umsaminna verkefna og efla innra gæðastarf sitt. Ríkisendurskoðun hvetur Háskóla Íslands einnig til að stuðla að því að frumgreinakennsla Keilis uppfylli faglegar kröfur eins og yfirvöld menntamála til að efla eftirlit sitt með skólanum.

Keilir var stofnaður árið 2007 sem sambræðingur einkarekins framhaldsskóla, háskólaseturs, símenntunarstofnunar og nýsköpunarmiðstöðvar. Eigendur félagsins eru m.a. Háskóli Íslands, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, sveitarfélög og orkufyrirtæki.

Framlög ríkisins til uppbyggingar og kennslu Keilis námu samtals tæplega 686 milljónum króna á tímabilinu 2007‒2010.