Ríkisstjórnin fellur og flokkum á þingi fækkar um einn ef niðurstöður alþingiskosninga yrðu í samræmi við nýja skoðanakönnun Zenter rannsókna sem Fréttablaðið birtir. Framsóknarflokkurinn mælist rétt yfir mörkum þess að fá uppbótarþingmenn, en enn líklegur til að fá kjördæmakjörna menn í landsbyggðarkjördæmum miðað við dreifingu fylgis.

Hér má sjá niðurstöður könnunarinnar sem tekin var í gær 9. september 2019:

  1. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 21,5%, fékk 25,3% í kosningunum 2017
  2. Samfylkingin mælist með 13,9%, fékk 12,1% í kosningunum 2017
  3. Miðflokkurinn mælist með 12,9%, fékk 10,9% í kosningunum 2017
  4. Vinstrihreyfingin - grænt framboð mælist með 12,5%, fékk 16,9% í kosningunum 2017
  5. Píratar mælast með 12,3%, fengu 9,2% í kosningunum 2017
  6. Viðreisn mælist með 11,4%, fékk 6,7% í kosningunum 2017
  7. Framsóknarflokkurinn mælist með 6,2%, fékk 10,7% í kosningunum 2017
  8. Flokkur fólksins mælist með 4,0%, fékk 6,9%
  9. Aðrir flokkar mælst með 5,2%, en fengu 1,5% í kosningunum 2017

Samkvæmt könnuninni er Sjálfstæðisflokkurinn eftir sem áður stærstur með 21,5% fylgi, en fimm flokkar eru á bilinu 11 til 14%, meðan tveir flokkar eru í kringum 5% lágmarkið sem þarf til að fá uppbótarþingmenn, þar á meðal Framsóknarflokkurinn með 6,2% fylgi

Er það lækkun um tvö prósentustig frá síðustu könnun þegar flokkurinn mældist með 8,2%, en í kosningunum árið 2017 fékk hann 10,7%.

Orkupakki ESB færir kjósendur sem ekki er sama

Á sama tíma hefur Miðflokkurinn, sem stofnaður er af fyrrum formanni flokksins, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni aukið við fylgi sitt úr 10,9% í kosningunum 12,9%, en í síðustu könnun sem gerð var 26. júlí mældist hann þó með 13,4% atkvæða.

Einnig var kannað hve miklu samþykkt svokallaðs orkupakka 3, sérstakra Evrópulaga sem myndar sameiginlegan orkumarkað á EES svæðinu og eykur völd ESB yfir orkumarkaðnum, skipti máli fyrir kjósendur mismunandi flokka.

Þingið samþykkti löggjöfina eftir þinghlé á haustdögum eftir að málinu var frestað yfir sumarið í kjölfar mikillar umræðu síðustu mánuði og misseri.

Sögðu 9 af hverjum 10 þeirra sem styðja Miðflokkinn málið hafa mikil áhrif á sig, 2 af 3 sem styðja Flokk fólksins segja það sama. Einnig skiptir málið stuðningsmenn Sósíalistaflokksins máli, en málið virðist ekki skipta þá sem enn styðja aðra flokka jafnmiklu máli.

Gætu fengið kjördæmakjörinn en ekki uppbótarmann

Samkvæmt breyttum lögum um kosningar sem tóku gildi við kjördæmabreytinguna sem fyrst var kosið eftir árið 2003 þurfa flokkar að ná 5% lágmarki á landsvísu til að fá uppbótarþingmenn.

Áður þurftu flokkar að fá kjördæmakjörinn mann til að fá uppbótarþingmenn, en Framsóknarflokkurinn er þó áfram líklegri til að fá mann kjörinn á þing í gegnum landsbyggðarkjördæmi, þar sem ætla má að hann njóti enn nokkurs fylgis öfugt við á höfuðborgarsvæðinu þar sem fylgið mælist 2,2% í þessari könnun, ef miðað er við heildarfylgið.

Flokkur fólksins, sem mælist með 4,0%, er þar með undir mörkunum til að fá uppbótarþingmenn, en aðrir flokkar mælast svo með með 5,2%, en þar af eru líklega stuðningsmenn Sósíalistaflokksins einna stærstir.