Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra sagði í umræðum í kjölfar stefnuræðu forsætisráðherra í gær að Katrínu Jakobsdóttir hefði tekist að beygja bakland eigin flokks að því er mbl.is segir frá .

„3% kjósenda vinstri grænna vildu fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, og á sama tíma að leggja gjörvallan Sjálfstæðisflokkinn að fótum sér, ef hann var ekki þegar liggjandi þegar hún fann hann. Það er sannarlega ekki lítið afrek,“ segir Sigmundur Davíð og beinir síðan skotum sínum að sínum fyrrverandi félögum í Framsóknarflokknum.

Vísaði í eigin árangur sem stóru sigrana

„[Hann hafði], eins og ráðherrann vissi, auglýst sig á brunaútsölu frá því eftir þar síðustu kosningar.“ Sagði Sigmundur stjórnina ætla að leyfa bakslag í árangri fyrri ára og eftirgjöf stóru sigranna eins og hann kallaði það.

„[S]em skiluðu hinum mikla efnahagsárangri sem nú á að nýta, sjáum við stjórnina pikkfesta samfélagið í viðjum kerfishugsunar aftur frá síðustu öld,“ segir Sigmundur Davíð og segir hún stjórnina ætla að eftirláta kerfinu að stjórna og spyr hvar Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn finni áherslur í stjórnarsáttmálanum sem þeir geti verið stolltir af.

„Í fjárlögum er gert ráð fyrir að auka framlög til forsætisráðuneytisins um 50% milli ára. Ég hef aldrei séð aðra eins aukningu hjá nokkru ráðuneyti. Þetta er miklu meira en gert var ráð fyrir í fjárlögunum sem kynnt voru í september síðastliðnum. Stór hluti af aukningunni er nýtt 105 milljóna króna framlag sem á að nota í forsætisráðuneytinu til að hafa eftirlit með ráðherrum ríkisstjórnarinnar, samræma aðgerðir og passa upp á að þeir fylgi réttri stefnu."

Segir forsætisráðuneytið fá aukin eftirlitsvöld

Segir hann að fyrir þessa fjárhæð verði hægt að ráða einn eftirlitsmann til að framfylgja stefnu VG í hverju ráðuneyti.

Loks skaut Sigmundur á stjórnarsáttmálann og sagði ekkert samfélag hafa verið byggt uppp á innihaldslausum frösum stjórnmálamanna, en eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá birti hann sína eigin útgáfu af stjórnarsáttmálanum þar sem hann gerði stólpagrín að orðalagi stefnuskrárinnar.